151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst, bara svo að það sé alveg skýrt, þá er þessi ákvörðun ekki tekin vegna hagræðingarkröfu eða henni einhvern veginn stýrt af vilja mínum til að hagræða. Verkefnið leiðir það af sér að við erum að forgangsraða verkefnum sem við teljum að ríkið eigi að stíga inn í og sinna. Það gerir að verkum að af rúmlega 700 millj. kr. sem fara árlega inn í Nýsköpunarmiðstöð verða um 300 millj. kr. eftir þegar þessu verkefni er lokið. Ég legg hér til að þeim sé í raun skilað aftur inn í ríkissjóð. Auðvitað eru fjölmörg verkefni að fara á nýjan stað og í því felast samlegðaráhrif, til að mynda með flutningi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar erum við einfaldlega að setja málaflokkinn á einn stað sem ég trúi að muni bæta stöðu hans í heild sinni. Það sama á við um önnur verkefni sem eru einfaldlega að fara á nýtt heimili. Við erum að gera samning við Hafrannsóknastofnun sem þegar er með ákveðin tæki og þar er ákveðin þekking. Ég held að bæði sé það verkefninu til heilla og muni líka leiða af sér frekari samlegðaráhrif sem mér finnst skipta máli að séu partur af þessu. Það er ekki sérstök greining önnur en það sem varðar fjármál Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Við látum fjármuni fylgja þeim verkefnum sem fara á nýjan stað. Við erum ekki að flytja verkefnin án fjármagns þannig að það muni bitna á verkefnum sem þegar eru á öðrum stað í stjórnkerfinu. Það er ekki til önnur greining en sú að við horfum á fjármagnið sem fer nú þegar til Nýsköpunarmiðstöðvar. Með flutningi verkefna, og auðvitað líka nýjum verkefnum sem verður að koma á fót, verða eftir 300 millj. kr. sem fara síðan til baka inn í ríkissjóð.