151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég er með einhverjum hætti að misskilja hv. þingmann eða hvort hann er, viljandi eða óviljandi, að snúa út úr. Það er augljós hagræðing innan stjórnsýslunnar þegar við getum haldið áfram verkefnum og flutt fjármagn með þeim verkefnum. Við sendum þau ekki fjársvelt á nýjan stað heldur fylgir þeim á nýjan stað það fjármagn sem hefur farið til þeirra. Við lækkuðum stjórnsýslukostnað um 300 millj. kr. Það er hagræðingin.

Það sem ég sagði í fyrra svari mínu er að við förum ekki í þetta verkefni með það eitt að markmiði að geta skilað 300 millj. kr. inn í ríkissjóð að nýju. Verkefnið er að forgangsraða verkefnum, hætta þeim sem við teljum ríkið ekki þurfa að sinna lengur á ákveðnum svæðum og færa verkefni á betri stað þar sem ég trúi að þau muni eflast. Og við látum fjármagnið fylgja. Af öllu þessu leiðir að 300 millj. kr. sitja eftir. Ég tók ákvörðun um að finna ekki ný verkefni til að nýta fjármagnið í heldur skila því í ríkissjóð. Í samhengi við allar aðrar ákvarðanir sem við höfum tekið, sem hafa falið í sér stórkostlega aukinn stuðning og fjármuni úr ríkissjóði í alls konar nýsköpunarverkefni, felur það sem snýr að Nýsköpunarmiðstöð Íslands í sér 300 millj. kr. hagræðingu innan stjórnsýslunnar. Við gerum ekki ráð fyrir að aukinn kostnaður verði á þeim stöðum sem verkefnin hafa farið á heldur flytjum við fjármagnið með. Það er kostnaðarmatið og það er auðvitað gert í samvinnu og samtali við þær stofnanir sem taka við verkefninu. Að baki eru til greiningar og samtal á milli þeirra sem taka við verkefninu og okkar sem erum að flytja það yfir, kostnaðargreining, samlegðaráhrif, ábatagreining o.s.frv.