151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Eins og komið hefur fram gegnir Tækniþróunarsjóður lykilhlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar hérlendis og er í raun sú grein ríkissjóðs sem styðja skal við tækniþróun í landinu. Þess vegna er lagagrundvöllur þessa sjóðs forsenda þess að við getum nýtt okkur auðlindir og mannafla og staðið jafnfætis öðrum þjóðum, lífskjörum, byggt grunn undir framleiðsluiðnað sem atvinnugrein og nýtt íslenskt hugvit til að ná markaðsforskoti á heimsvísu í einstökum greinum. Það er náttúrlega markmiðið með þessu öllu saman, mjög göfugt og ánægjulegt.

En ég vil víkja aðeins að 1. gr. Þar er fjallað um hlutverk sjóðsins og mætti ýmislegt finna að þessu orðalagi þar en ég sleppi því hér. En það er einkanlega eitt atriði sem ég staldraði dálítið við. Þar segir varðandi hlutverk sjóðsins að hann eigi að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar. Hér kemur að því sem ég held að þurfi að skýra betur; sjóðurinn getur náttúrlega ekki verið óháður burðaraðili styrkveitingar til nýsköpunar í landinu á sama tíma og hann er eignaraðili að einstökum sprotaverkefnum, þ.e. að hann eigi aðild á frumstigi nýsköpunar. Hann er samkeppnissjóður og hlýtur þá væntanlega þurfa að starfa sem óháður og hlutlaus matsaðili umsókna í sjóðnum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Þegar sjóðurinn á sjálfur orðið aðild að verkefninu, eru ekki þarna hreint og beint alvarlegir hagsmunaárekstrar?