151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:21]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mér bara stöðu sem ráðherra og framkvæmdarvaldið. Ég held að það hefði nú verið ágætt hjá hv. þingmanni að spyrja hæstv. ráðherra. En ég tek undir það að þessi ríkisstjórn hefur sett sér þau markmið að hér verði framúrskarandi umhverfi nýsköpunar og tel að hún hafi nú gert ansi margt í þá veru. Ég vil ekki telja upp Kríu-sjóðinn og Nýsköpunarsjóð námsmanna og nýsköpunarsjóð í heilbrigðisþjónustu og nýsköpunarsjóð í matvælaframleiðslu og annað slíkt, vegna þess að þá gæti hv. þingmaður haldið því fram að við hefðum ekki gert nægilega mikið. En samt sem áður er það svo að þessir sjóðir eru til og skipta nú sennilega mörg hundruð milljónum, ef ekki yfir milljarð. Sett er fram nýsköpunarstefna í fyrsta skipti, sem er mjög framsækin að mínu mati. Klasasamstarf á Íslandi er eflt og verið er að setja fram klasastefnu, sem er lykilatriði í nýsköpun, og búið er að efla Tækniþróunarsjóð verulega og samkeppnissjóðina yfir höfuð. Það er nýbúið að gera það í gegnum vísinda- og tæknisamvinnunefnd ráðherranna. Það sem hér er undir eru breytingar á skipulagi. Ég fór yfir mikilvægi þess að það sé í góðu horfi og tel að ráðherra hafi lagt fram frumvarp sem er vísir til þess, en að það þurfi að endurskoða það eða vinna það betur í nefnd. Nær því að hrósa núverandi stjórnvöldum fyrir nýsköpun eða aðstoð við nýsköpun kemst ég ekki.