151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:26]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðstoð við frumkvöðla eða stuðningur eða samstarf við frumkvöðla er mjög flókið ferli í sjálfu sér, einfaldlega vegna þess að frumkvöðlastarfsemi er ákaflega langæ starfsemi yfirleitt, þ.e. tíminn frá því að hugmynd kviknar og þangað til komin er einhver vara getur tekið fimm til tíu ár. Þannig að við erum að tala um þrepaskiptingu sem byrjar með aðstoð í upphafi, sem t.d. Nýsköpunarmiðstöðin hefur verið að veita og aðrir munu vonandi veita í samvinnu við frumkvöðlana sjálfa.

Síðan eru það samkeppnissjóðir sem hægt væri að sækja í og þeir hafa verið efldir. Svo koma fyrirtækin til sögunnar, Startup og ýmislegt slíkt sem tíðkast hefur núna, ráðstefnur eða samkomur þar sem verið er að tengja á milli fyrirtækja og frumkvöðla. Það skiptir verulegu máli vegna þess að þar er jú hluti af fjármagninu. Fjármagnið er ekki allt á vegum ríkisins sem kemur til nýsköpunar, svo fjarri því. Það skiptir einmitt máli bæði að fjárfestingarbankar og fyrirtæki komi inn í þetta. Síðan eru það frumkvöðlasetrin sjálf og klasarnir sem koma líka til sögunnar, þannig að ég get alveg tekið undir að það væri æskilegt að þau samtök frumkvöðla sem hv. þingmaður var að kvarta yfir að fengju ekki nóg fé, væru styrkt frekar. En þegar öll þessi margra þrepa eldflaug er skoðuð er ekkert skrýtið þó að ekki sé fullt jafnvægi milli fjármögnunar eða fjárveitingar til allra þessara aðila vegna þess að það er ærið verkefni að gera það svo vel fari.