151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þegar maður les þetta frumvarp yfir og gaumgæfir það þá dettur manni helst í hug að hugmyndin að því hafi fæðst í fundarhléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem menn hafi verið með uppskrift að ríkisfyrirtækjum sem væri gott að leggja niður. Menn hafi verið með svartan penna og strikað yfir nokkrar stofnanir sem þeim voru ekki að skapi eða þóknanlegar. Þetta mál virðist ekki vera djúpt hugsað og það kann vel að vera að einhvers staðar í heiminum þyki það til marks um að minnka bákn að leggja niður ríkisstofnun sem hefur ágætt orð á sér og stofna í staðinn einkahlutafélag. Það getur vel verið, nota bene í eigu ríkisins. Það getur vel verið að þetta sé einhvers staðar í heiminum sett til marks um vel heppnaða leið til þess að minnka báknið. En við Miðflokksmenn teljum reyndar ekki svo vera.

Mig langar að lesa hér úr nýlegri ályktun sem var samþykkt á aukalandsþingi Miðflokksins um daginn. Ályktunin er nr. 10 og er um mikilvægi nýsköpunar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Miðflokkurinn styður dyggilega við hvers konar framþróun og nýsköpun.

Miðflokkurinn telur þó að fyrirliggjandi frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun sem inniber að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands sé samið án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til rannsóknar og þróunar og án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum.

Það er auk þess gert án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar og starfsemi nauðsynlegra rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þá vantar faglega greiningu á hvar helstu tækifæri Íslands í tækni- og orkurannsóknum liggi og án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur framlags hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð.

Miðflokkurinn telur því skynsamlegt að fresta því að afgreiða umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.“

Nú segi ég aftur, herra forseti: Það kann vel að vera að einhvers staðar í heiminum þyki það rosalega sniðugt að leggja niður vel þokkaða ríkisstofnun og stofna í staðinn einkahlutafélag í eigu ríkisins og telja sig hafa minnkað bákn með því og aukið samlegð og aukið gagnsæi, og ég veit ekki hvað. En þá skal fyrst til taka það sem farið hefur á undan. Við höfum spor til að hræðast. Við höfum tekið ríkisfyrirtæki og breytt þeim í hlutafélög. Stjórnvöld, og þá er ég líka að tala um Alþingi, hafa um leið misst nánast alla aðkomu að þessum fyrirtækjum, hvað varðar stjórnun, eftirlit og hvað sem er. Við höfum mjög slæm dæmi um þetta sem eru nýleg og líka dæmi sem eru gömul. Mig langar að nefna eitt fyrirtæki sem er ríkisfyrirtæki í hlutafélagsformi, sem er hér þremur götum frá að byggja höfuðstöðvar á dýrustu lóð á Íslandi sem er helmingi stærri en stofnunin þarf á að halda og er á stað þar sem slík starfsemi þarf alls ekki að vera á, á dýrustu lóð á Íslandi. En á meðan er sama stofnun, og ég er að tala um Landsbanka Íslands, að selja mjög gott hús á Selfossi. Ég vil geta þess að milli Selfoss og Reykjavíkur eru mjög góðar samgöngur. Fjöldi fólks af Árborgarsvæðinu sækir vinnu til Reykjavíkur. Nú geta höfuðstöðvar Landsbankans staðið hvar sem er. Þær gætu verið á Raufarhöfn, og ég er ekki að gera lítið úr Raufarhöfn, það er mjög góður og skemmtilegur og fallegur staður. Það eina sem gæti orðið til að trufla starfsemina eru tölvusamskipti. Ef þau væru í lagi og samgöngur yrðu aðeins bættar væri ekkert mál fyrir Landsbanka Íslands að hafa höfuðstöðvar þar. Og því segi ég þetta, herra forseti, að ég sé ekki sparnað í því að leggja niður þessa stofnun, sem ber reyndar að með mjög skjótum hætti, og leggja í það fé úr ríkissjóði, hlutafé, nema menn ætli að hafa lágmarkið 500.000 kr., það er hugsanlegt, það kemur þá í ljós á eftir, og breyta apparatinu í einkahlutafélag.

Þar sem svona tilraunir hafa verið gerðar áður á Íslandi þá er það þannig að það sem gerist í fyrstu atrennu er að laun allra stjórnenda hækka verulega, yfirleitt umfram almennar launahækkanir. Launakostnaður í þessum fyrirtækjum hækkar verulega. Ég fæ heldur ekki séð í fljótu bragði að svona vel þokkaða ríkisstofnun, sem hefur staðið sig bærilega, eigi að leggja niður með svo bráðum hætti að það kom mjög flatt upp á starfsfólk; það virðist ekki hafa verið gefið neitt merki um það til starfsfólks að þetta stæði til.

Í samantekt með frumvarpinu, herra forseti, er tæpt á alls konar atriðum sem í sjálfu sér standast ekki alveg skoðun. Á bls. 12 segir, með leyfi forseta:

„Eins og áður hefur komið fram varð stofnunin til með lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, með samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.“

Nú á einmitt, herra forseti, að taka fullt af verkefnum frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og setja þau inn í nýja Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það er engin þekking þar. Menn verða þá að flytja þessa sömu starfsmenn, sem þarna missa vinnuna, þangað yfir. Ég velti fyrir mér hagkvæmninni og síðan kemur hér perla, aðeins neðar á bls. 12:

„Sú starfsemi sem fram fer í húsnæði Nýsköpunarmiðstöðvar í Keldnaholti og varðar stuðning við frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki á sviði hátækni á betur heima í meiri nálægð og samlegð við háskólasamfélagið og rekstur slíkrar stuðningsþjónustu þarf jafnframt að byggjast á skýru eignarhaldi og ábyrgð.“

Eru samgöngur svona ógreiðar vestan úr bæ upp í Keldnaholt, herra forseti? Nú horfi ég í augun á mesta stuðningsmanni borgarlínunnar á Íslandi sem mun örugglega fagna því mjög að þetta verði með þessum hætti en í sömu andrá eru menn að byggja upp kerfi, rándýrt, sem ekki eru til peningar fyrir til að flytja fólk á milli þessara sömu bæjarhluta. Þessi starfsemi sem er á landsvæði þar sem stækkunarmöguleikar eru fínir — nei, það á að bora þessu niður í Vatnsmýrina og þrengja þar með að flugvellinum sem þetta sama fólk hatast við af því að samgöngur eru ekki það sama og samgöngur. En það er önnur saga, herra forseti.

Á bls. 12 segir einnig:

„Þá má einnig nefna að ýmis verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar sem snúa að stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni mætti tengja við sóknaráætlanir landshluta og atvinnulíf og innviði á viðkomandi stöðum.“

Þetta er alveg hárrétt. En þá ætla ég að nefna það að þeir sem ekki koma fljúgandi í bæinn eiga miklu greiðari leið að Keldnaholti en niður í miðbæ Reykjavíkur, bara svo að það sé sagt, ef menn vilja auka persónuleg kynni eftir að þessari plágu lýkur.

Herra forseti. Mér finnst að þetta frumvarp hafi verið samið í fljótræði og ég er t.d. efins um það — ég fæ kannski svar við því hér á eftir frá hæstv. ráðherra, mér sýnist að hún vilji koma í andsvar við mig, sem ég fagna — að samráð eða samband hafi verið haft við viðskiptavini ríkisstofnunarinnar, þ.e. frumkvöðla sem eru með starfsemi. Hefur verið leitað samráðs við þá? Hafa þessar áætlanir verið kynntar fyrir frumkvöðlum, virkum frumkvöðlum? Einhvern veginn er mér það til efs. Það er til ágætur málsháttur vestur í Ameríku sem við Íslendingar ættum stundum að fara eftir: Ef það virkar, ekki breyta því. Hér held ég að við séum með dæmi um eitthvað sem hefur virkað bærilega en þarf nú að leggjast á höggstokkinn út af því að í fundarhléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefur einhver verið með lista yfir stofnanir sem hægt væri að strika út til að „minnka báknið“.

Menn hafa líka leitað ýmissa leiða til að minnka skriffinnsku og bákn á Íslandi, t.d. með því að leggja niður löggildingu bílasala, eitthvað sem var til stórrar óþurftar og mun færa verslun með notaðar bifreiðar niður á frumskógarstigið aftur. En að hrófla við einhverju sem skiptir einhverju verulegu máli — nei, það vantar kjark til þess, herra forseti. Þann kjark er ekki að finna í fundarhléi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, það er alveg greinilegt. Þess vegna taka menn einhverjar svona ákvarðanir og í staðinn fyrir að leggja eitthvað niður þá á að byggja upp nýtt bákn, en það heitir ehf. og verður þá á ríkisreikningi, það er alveg rétt. En þetta held ég að sé misráðið.

Ég átti tal um daginn við einn mesta frumkvöðul á Íslandi. Hann sagði við mig: Taktu eftir einu, um leið og sprotafyrirtæki á Íslandi eru komin af bernsku, jafnvel komin með framleiðsluvöru eða fullmótaða hugmynd, sem þarf bara að hrinda í framkvæmd, þá eru þau oftast seld til útlanda að miklu leyti. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess að þessi frumaðstoð við frumkvöðla og menn sem eru í nýsköpun virðist vera í bærilegu lagi, m.a. út af stofnunum eins og Nýsköpunarmiðstöð. Nei, það sem gerist þá, þegar fyrirtækin eru orðin burðug, er að þau fá hvergi fjárhagsfyrirgreiðslu. Íslenskir bankar, þar á meðal tveir ríkisbankar, lána ekki til slíkra fyrirtækja, sem þýðir að fyrirtækin þurfa að leita út eftir fjármagni. Það hefur mjög oft í för með sér að þessi fyrirtæki flytjast úr landi, yfirstjórnin flyst alla vega úr landi og í undantekningartilfellum eru hér einhverjar útstöðvar í vinnu.

Ég hefði haldið, herra forseti, að núna þegar við þurfum að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf, og það eru allir sammála um að gera það, alla vega í orði, þá myndu menn hugsa sig um. Í stefnuræðu forsætisráðherra hér um daginn var alltaf verið að tala um eitthvað grænt, græn markmið og græn fyrirtæki, en það er ekkert á bak við þetta. Þetta eru pólitískir límmiðar og límmiðapólitík er ódýr pólitík. Það voru engar alvörutillögur um eitt eða neitt.

Það er eins og hér, það á að auka tækniframleiðslu á Íslandi, auka nýsköpun og auka framleiðsluverðmæti þeirra sem þetta gera. Þetta er bara sagt á hátíðlegum stundum en um leið er stofnunin sem þetta sama fólk leitaði til skriðtækluð og menn vita ekkert hvað á að koma í staðinn, nema ehf. Það er alls ekkert skýrt og það er heldur ekki skýrt hvernig það á að virka, alls ekki.

Fjárhagslegur sparnaður — nei, hann er ekki hérna. Meint hagræðing — í lágmarki. Betri þjónusta — það getur vel verið að þjónustan batni við að svarað sé í símann með orðunun Nýsköpunarmiðstöð Íslands ehf. í staðinn fyrir Nýsköpunarmiðstöð yfir höfuð. Ég er ekki alveg að kaupa það en það getur verið, hugsanlegt er það. Ef menn halda það er bara miklu ódýrara að halda gott þjónustunámskeið fyrir þá starfsmenn sem þarna voru og á nú að kasta út með litlum sem engum fyrirvara.

Ég hefði haldið, herra forseti, að það væri affarasælt, eins og segir í ályktun okkar Miðflokksmanna, að geyma þetta um sinn. Undirbúa þetta betur, hafa kannski samband við viðskiptavinina, frumkvöðlana sjálfa, kanna hug þeirra til stofnunarinnar og þeirra hugsanlegu breytinga sem nú standa fyrir dyrum áður en haldið er af stað út í óvissuna.