151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkrar spurningar sem mig langaði að koma með. Hv. þingmaður fer víða í ræðu sinni. Ég átta mig ekki alveg á samhenginu við eignarhald ríkisins á Landsbankanum en ég er alveg til í að ræða hversu góð hugmynd það er að selja banka. Hv. þingmaður segist ekki sjá sparnaðinn. Hann er samt 300 milljónir. Það liggur fyrir og ég hef tekið ákvörðun um að skila þeim fjármunum í ríkissjóð. Þau verkefni sem áfram lifa eru að mínu viti að eflast á nýjum stað. Við erum að setja aukinn þunga í sum þeirra. Það eru samlegðaráhrif, það er aukin skilvirkni, það er ákveðin straumlínulögun innan stjórnkerfisins þar sem við erum að setja verkefnið þar sem málaflokkurinn á heima sem er verkefninu þá til góðs.

Ég veit ekki hvort maður eigi að svara því yfir höfuð en hv. þingmaður lætur að því liggja að ákvörðunin sé tekin af því að stofnunin hafi ekki verið mér þóknanleg. Ég vil bara að það sé hér á riti hversu fjarstæðukennd ályktun það er og mínu viti niðurlægjandi fyrir hv. þingmann að halda það. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er öflug stofnun með öflugu starfsfólki sem hefur sinnt vinnu sinni vel og af mikilli alúð. Verkefnið snýst um allt annað og meira en það. Það er minni háttar að nálgast málið með þeim hætti. Hv. þingmaður segir að starfsmönnum hafi ekki verið gefið merki. Það var einmitt gert í febrúar og það hefur verið gagnrýnt hinum megin frá að við höfum tekið þennan tíma í það. Það er vegna þess að ég vildi að starfsmenn fengju að heyra af þessum áformum og gætu verið innviklaðir í þá vinnu sem fram undan væri. Það er áhugaverð ályktun hjá Miðflokknum, sem gaman væri að fá að hlýða á hér, að af því að embættismenn hafi ekki unnið nógu miklar greiningar sé ekki hægt að leggja niður opinberar stofnanir og minnka báknið. Það er ágætt að það liggi fyrir að þegar Miðflokkurinn fær tækifæri til að gera það sem hann einmitt segist gera og skrifar stundum greinar um þá er svarið alltaf: Nei, það er ekki hægt. (Forseti hringir.)

En það að fyrirtæki fái fjármagn erlendis frá er ekki vont. Ef menn halda því fram að Tæknisetur, sem er hugmynd (Forseti hringir.) og verkefni sem hefur verið til umræðu í 20 ár, snúist um að svara í símann þá er ekki svo. En samhengið við Landsbankann og þessa þætti, það skil ég ekki alveg. Það væri gott að fá frekari skýringar á því.