151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun. Þetta er frumvarp sem verið hefur nokkuð til umfjöllunar og einhverjir hópar hafa á því sterkar skoðanir. Saga opinbers stuðnings við vísindarannsóknir á Íslandi er ekki löng. Opinber afskipti af rannsókna- og vísindastarfi í núverandi mynd hófust með stofnun Rannsóknaráðs ríkisins árið 1940 og Vísindasjóðs árið 1957. Saga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nær aftur til 2007, með sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.

Nú virðist úti um Nýsköpunarmiðstöð, hún fuðrar upp og verður skilin eftir sviðin jörð og öskunni dreift á víðavang. Tugir sérhæfðra starfsmanna fara á aðra vegu, missa vinnu sína, þar af sex sem starfað hafa á landsbyggðinni, en þeir voru þar flestir 13. Þetta er mjög miður.

Það ánægjulega við þetta frumvarp er alltént það að nú er sjónum beint að því mikilvæga verkefni sem er nýsköpun. Það er lykilhugtak í samfélagi dagsins, grundvallaratriði fyrir sjálfstæða þjóð sem einsetur sér að efla velferð og skapa þegnum sínum ákjósanlegt líf, líf á borð við það sem best þekkist meðal samfélaga á heimsvísu. Ný verkefni, ný viðfangsefni bíða handan við hornið. Tækni fleygir fram og við horfum fram á kúvendingu á ýmsum sviðum og við tölum um fjórðu iðnbyltinguna með sprengiáhrifum í gervigreind, róbótatækni, sjálfkeyrandi bílum, sjálfvirknivæðingu og fleiru sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum.

Hvert stefna íslenska stjórnvöld? er spurt og svörin eru ekki sannfærandi. Það er lagt upp í ævintýraferð. Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar segir að allt sé að gerast, jörðin sé frjó, markaðurinn bíði ólmur, einkaaðilar geti tekið að sér verulegan hluta af þeim sérhæfðu, samhæfðu, mikilvægu og krefjandi verkefnum sem Nýsköpunarmiðstöð hefur haft á hendi.

Ég er mikill unnandi einkaframtaks. Í því býr kraftur, dirfska og áræði og mikið afl til frumkvæðis og framkvæmda. Þetta eigum við sannarlega að virkja. En allt á sín takmörk og á ýmsum sviðum eigum við sameiginlega að móta meginstefnu, halda utan um mikilvæga þætti á sviði rannsókna og innviðauppbyggingar, langtímaverkefni sem útheimta samfellu og samfélagslega ábyrgð þar sem mikilvægt er að safna upp reynslu og sérþekkingu og stunda vísindalegar rannsóknir sem eru lykilatriði í nýsköpunarverkefnum. Þetta eru mikilvæg atriði.

Það eru margir spennandi hlutir að gerast á þessu sviði á Íslandi, margvíslegir sprotar og angar sem gefa góð fyrirheit eða gætu gert það ef þeir fá jarðveg og ná að festa rætur. Að þessu ættum við að einbeita okkur með markvissum vinnubrögðum, með þróun, líka varðandi yfirstjórn á þessum málum.

Nýsköpun á landsbyggðinni er gríðarlega mikilvæg og er mér hugleikin, en á sama tíma er hún brothætt og sérstakt áhyggjuefni. Ef ég horfi bara á mitt kjördæmi, sem ég geri nú ekki af tilviljun, þá hafa einstaklingar og hópar náð að fikra sig með aðdáunarverðum hætti inn á svið nýsköpunar þótt ytri aðstæður séu þeim að mörgu leyti heldur önugar. Á Skagaströnd er t.d. starfandi sjávarlíftæknisetur sem byggir starf sitt á rannsóknum á lífríki Húnaflóa og hefur alla burði til vaxtar. Á Blönduósi er unnið að áhugaverðum verkefnum í matvælaþróun og spennandi möguleikar eru tengdir gagnaverum. Í Húnaþingi vestra er mikil gerjun og nýsköpun í ferðaþjónustu og ýmsum störfum tengdum þeim. Á Sauðárkróki er unnið af miklum metnaði að þróun á ýmsum vörutegundum sem verða til við sjávarútveginn og það á reyndar einnig við um afurðir sem koma frá landbúnaði. Á Ísafirði vex starfsemi fyrirtækisins Keresis hröðum skrefum, fyrirtæki sem vinnur verðmæta afurð úr fiskroði fyrir erlenda markaði. Á Akranesi og á Ísafirði er fyrirtækið Skaginn 3X sem á í viðskiptum um allan heim með sínar þróuðu hátæknivörur í matvælaiðnaði.

Þetta eru bara fá dæmi um möguleikana og hug fólks um landið til að takast á við framtíðina. Það skortir ekkert á áhugann, færnina og þekkinguna hjá fólki á svæðunum. Þetta eru líklega allt dæmi um verkefni sem ég trúi að Nýsköpunarmiðstöð hafi komið að á einu eða öðru stigi í ferli þessara fyrirtækja. Flest sprotafyrirtæki hafa á einhverju stigi notið fyrirgreiðslu og stuðnings, fengið styrki til rannsókna og þróunar, fyrir tilstuðlan Nýsköpunarmiðstöðvar.

Ef kostirnir bjóðast drífur fólk að á landsbyggðinni. En okkar, hinna opinberu aðila, stjórnvalda, er að skapa almennar forsendur til þess að nýsköpun fái að dafna og taka þarf sérstakt tillit til aðstæðna þar sem fjarlægðir eru talsverðar og kostnaðarsamt að afla aðfanga, ef það á við, og koma þeim afurðum á markað. Þetta er sérstakt áhyggjuefni, hvernig þessi sprotafyrirtæki fá að spreyta sig á landsbyggðinni. Hugurinn hvarflar að því hvað stjórnvöld sýna raunverulega í verki varðandi mikilvægi þessa þáttar, sérstaklega því sem snýr að nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Það er ólíkt hlutskipti að fást við nýsköpun, vísinda- og þróunarstörf á landsbyggðinni eða hér á suðvesturhorninu. En það er ekkert aukaatriði að sprotar nái og fái að dafna að þessu leyti um allt land.

Nýsköpunarmiðstöð hefur á sínum starfstíma, sem er ekki langur, 13 ára líftími stofnunar er ekki langur tími, veitt gjaldfrjálsa ráðgjöf til frumkvöðla og sprotafyrirtækja um allt land. Eins og fram kom hjá hv. ræðumanni áðan, Ara Trausta Guðmundssyni, hefur þessi stofnun meðtekið allt að 1.000 handleiðslufyrirspurnir á hverju ári og verið fyrirtækjum gríðarlega mikilvægur stuðningur. Það er hætta á því að öllu þessu starfi, öllu þessu handleiðslustarfi, leiðbeiningum um fyrstu skrefin, verði fórnað og landsbyggðin verði illa fyrir barðinu á þessu. Sprotafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eru meira að segja uggandi. Þetta er alvarlegt á okkar tímum. Þetta er alvarleg aðgerð. Reynslan hefur þegar sýnt okkur frá kreppunni 2008 hversu mikilvæg slík þjónusta er fyrir samfélagið, þetta samfélag sem freistar þess að ná öflugri og hraðri viðspyrnu eftir yfirstandandi áfall og hversu mikil verðmæti hún getur skapað. Nýsköpunarmiðstöð hefur stutt lítil sprotafyrirtæki með þekkingu og leiðbeiningum varðandi rannsóknarstyrki. Það hefur slegið nokkuð á aðstöðumun landsbyggðarfyrirtækja sem leita þessarar leiðar og munurinn er mikill því að það fylgir því líka mikill ferðakostnaður að leita sér aðstoðar lykilstofnana í Reykjavík. Nýsköpunarfyrirtæki á landsbyggðinni segja líka að trúverðugleiki þeirra sé stundum dreginn jafnvel í efa vegna þess að þau eru fjarlæg, hafa ekki sama tengslanet og fyrirtæki í Reykjavík. Þess vegna er þessi handleiðsla, leiðbeiningar Nýsköpunarmiðstöðvar, þeim svo dýrmæt.

Virðulegi forseti. Opinberum starfsmönnum hefur fækkað á landsbyggðinni og það nær líka til þessa geira, t.d. varðandi Nýsköpunarmiðstöð. Þeim hefur fækkað í seinni tíð. Það er fyrst og fremst af fjárhagslegum ástæðum, hvernig hin fjárhagslega umgjörð stofnunarinnar er búin út. Það er gríðarlegt atriði að við náum að fjölga fólki með sérfræðiþekkingu á landsbyggðinni, breikka þekkingargrunn og efla möguleikana til að sækja um rannsóknarstyrki. Það er hörð barátta, fjármunir eru takmörkuð lind. Það eitt að sækja um, annast umsóknarferlið og leiðbeina varðandi það er mikilvægt. Litlir frumkvöðlar, lítil sprotafyrirtæki, lítil nýsköpunarfyrirtæki hafa ekki þessa þekkingu, þau hafa öðruvísi þekkingu og þarna þurfa þau stuðning. Þróunarsetrin og nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar um landið gegna þar að vísu miklu hlutverki, virka hreinlega eins og bræðslupottar fyrir hugmyndir og ýmis verkefni. Reynslan sýnir í gegnum árin hvað það er mikilvægt fyrir nýsköpun á landsbyggðinni að hafa sérfræðinga nærri sér, hafa sérfræðifulltrúa í samfélaginu sem geta aðstoðað frumkvöðla persónulega. Þess vegna er þetta svo mikilvægt.

Þessum tengslum og tengslaneti hefur Nýsköpunarmiðstöð verið að sinna og rækta og það er ekki svo auðvelt að sjá að önnur fyrirtæki í einkaeigu muni geta skapað sér þessa stöðu nema með ærnum kostnaði. Og hver mun greiða hann? Hugsanlega saxast á þennan 300 millj. kr. pott hjá hæstv. ráðherra við það.

Það er jákvætt að heyra að vilji ráðherra standi til þess að efla nýsköpun á landsbyggðinni og mæli hún manna og kvenna heilust. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu en er ekki útskýrt með skýrum hætti. Frumvarpið skilur eftir margar spurningar sem enn hefur ekki verið svarað, en vonandi tekst að vinna með málið í nefnd og við fáum skýrari svör.

Herra forseti. Markmið frumvarpsins er að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður á allra næstu mánuðum. Það má kannski ráða af mínum orðum að ég sé efins um að þetta sé skynsamleg leið, fremur en að búa stofnunina enn betur út til að geta talað til samfélagsins, tekið einhverjum breytingum. Það er ekkert óeðlilegt að Nýsköpunarmiðstöð þurfi að taka breytingum í takt við tímana, en að við köstum ekki algerlega á glæ þeirri þekkingu og þeirri reynslu, því stofnanaminni sem þarna er inni, brennum það upp, brennum á báli. Það er mikilvægt að geta talað inn í þær miklu breytingar sem fram undan eru og við vitum af, með tæknibreytingum og tækninýjungum sem blasa við.

Ég er sem sagt efins um að þau skref sem stigin eru hér séu merki um ráðdeild og skynsemi þó að ráðherra segist munu skila 300 millj. kr. í ríkiskassann til baka. Er það ekki á kostnað neins? Ráðherra metur það svo að með þessari lagagerð verði skapað umhverfi sem sé framúrskarandi fyrir frumkvöðla og aðila sem vinna í nýsköpunarumhverfi, hér sé verið að leggja upp í ferð með glæsibrag sem muni skila okkur miklum ávinningi. Ég er efins í ljósi þeirra trúarbragða sem ríkja í hennar ranni. Ég held að þetta sé ferð án fyrirheits.