151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ráðherra segir í andsvari við framsöguræðu hér áðan að verkefnin séu að færast til annarra aðila og að fjármagn fylgi þeim verkefnum en ekki komi til aukinn kostnaður. Því til stuðnings fylgja kostnaðargreiningar á þeim verkefnum, sem er bara æðislegt og frábært. Einfalda spurningin er því: Af hverju var það ekki svarið við fyrirspurn fjárlaganefndar um hver væri ágóðinn af því að færa verkefnin svona á milli? Það var það sem fjárlaganefnd bað um. Hún bað um útskýringar á því hvernig stjórnsýslukostnaðurinn færðist til. Og það sem meira er, það var líka verið að spyrja hvaða greiningar hefðu verið til þegar ákvörðunin var tekin. Svo virðist nefnilega vera að tekin hafi verið ákvörðun um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og síðan fundinn rökstuðningur fyrir því, að það væri hagkvæmt og gott fyrir nýsköpunarumhverfið eða ýmislegt svoleiðis. Það er mjög áhugaverð leið til að endurskipuleggja.

Ég myndi vilja sjá kostnaðargreiningarnar sem liggja þarna undir: Hér er verkefni X sem er í Nýsköpunarmiðstöð. Það færist til einhvers annars aðila. Því fylgir þetta mikið fjármagn o.s.frv. Verkefni Y í Nýsköpunarmiðstöð, sem kostar A, færist yfir í nýja stofnun eða á nýjan stað og þar er kostnaður B eða sami kostnaður, eða eitthvað því um líkt. Þegar búið er að raða öllu þessu upp þá er það samtals það sem eftir er í ákveðinn stjórnsýslukostnað, verkefni sem flytjast ekki. Það eru þessi verkefni, það er eðlilegt að þau falli niður af því að það er annað bókhald sem séð er um annars staðar. Það er ekki þörf á því lengur, það fellur niður. Frábært.

Og svo er það summan hinum megin: Er aukinn eða minni kostnaður út af samlegðaráhrifum af því að færa verkefni yfir? Vegna einhverra galdra virðist tilfærslan ekki kosta aukalega, eða nýr aðili tekur við fleiri verkefnum án þess að það kosti neitt aukalega. Allt fjármagnið sem kemur með verkefninu nær að halda algjörlega utan um það verkefni sem fluttist yfir. Ef við höldum áfram með þau rök og færum þau yfir á öll verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar, að allt það fjármagn sem verkefnin kosta flytjist með þeim á annan stað, hvað er þá eftir þegar búið er að flytja þau öll yfir? Það er nefnilega merkilegt. Kannski eru það einhver stjórnsýsluverkefni sem sitja eftir og eru á einhvern hátt gerð skilvirkari á nýjum stað. Það væri frábært að geta séð það á blaði, enda var það það sem fjárlaganefnd spurði um. Vinsamlegast sýnið okkur þetta hagræði, þessi auknu fjárframlög sem færast yfir í nýja fyrirkomulagið í stað þess að vera sóað í Nýsköpunarmiðstöð. Þannig vinnum við endurskipulagningu, við vinnum hana ekki með því að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og fara síðan að teikna upp nýtt fyrirkomulag sem gæti verið miklu betra en það sem við erum með núna. Við byrjum á því að segja: Núna erum við með þetta skipulag. Það virkar svona fyrir nýja aðila sem eru að koma inn, fyrir stöndug fyrirtæki sem eru að sækja um nýsköpunarstyrki, fyrir aðra aðila sem eru að fóta sig í nýsköpunarumhverfinu. Þetta eru leiðirnar sem þeir fara og hér er óskilvirkni samkvæmt þeim greiningum sem við erum með. Hérna erum við að endurtaka ýmsa hluti, sem væri auðveldara að gera skilvirkari með því að láta þessa aðila sjá um þá, sem eru hvort eð er að sjá um þá og þurfa ekki að vinna þá í endurtekningum. Í staðinn fyrir að það séu tíu aðilar að vinna sömu tíu hlutina tíu sinnum þá er það einn aðili sem vinnur þessa 100 hluti einu sinni. Það eru vissulega samlegðaráhrif í því.

En þetta er skipulagið sem við erum að biðja um og ég veit að starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar báðu líka um þetta. Þau vissu að það þyrfti að fara í ákveðna endurskipulagningu og gera hlutina betur í Nýsköpunarmiðstöð. Það hefur legið fyrir. Það hefur legið fyrir í ályktun þingsins um nýsköpunarstefnu að það ætti að gera það, það átti að fara í endurskoðun, skilvirknigreiningu og endurbætur á því hvernig þetta fúnkerar, hvernig þetta virkar. En í staðinn kemur allt í einu upp úr þurru frá hæstv. ráðherra: Ég ætla að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þegar allir klóra sér í hausnum og spyrja: Bíddu, af hverju? Passar hún ekki inn í? Er einhver óskilvirkni í gangi? Hver er hún nákvæmlega? Þá er bara sagt: Ég ætla að leggja stofnunina niður þannig að það verði minni stjórnsýslukostnaður og hann færist yfir í aukið fjármagn til verkefna. Og ýmislegt annað, vissulega. En það er þessi fullyrðing sem ég festi mig í. Þarna er fullyrðing og á bak við hana á að liggja greining.

Þá spyr ég: Allt í lagi, fyrst þú getur fullyrt þetta, sýndu mér þá gögnin sem liggja þar á bak við. Ég er mjög ósáttur við að framkvæmdarvaldið fullyrði eitthvað án þess að til séu greiningar til að rökstyðja þær fullyrðingar. Ef ráðherra ætlar að segja svona verður hún að geta hóstað upp gögnunum því til stuðnings. Þess vegna spurði ég í fjárlaganefnd: Hvar eru þessar útskýringar? Hvaða gögn lágu fyrir ákvörðuninni þegar hún var tekin? Og svörin eru engin. Nú svarar ráðherra því hins vegar þannig að þessar greiningar séu til, sem ég verð þá að gera ráð fyrir að hafi verið gerðar eftir á. Gott og blessað, frábært. Af hverju megum við ekki sjá þær? Af hverju voru þær ekki hluti af svarinu sem barst fjárlaganefnd fyrir ekki svo mörgum dögum? Ég skil það ekki.

Það er á þessum forsendum sem maður nálgast frumvarp eins og þetta. Þetta er eftirárökstuðningur. Við erum búin að taka ákvörðun og við þurfum að finna út eitthvert fyrirkomulag sem við höldum að virki betur. Sýnið okkur þá að það virki betur. Sýnið okkur af hverju það virkar betur. Það er það eina sem við biðjum um. Það er ekki gert í þessu frumvarpi. Svo einfalt er það. Það viljum við ekki og þannig eigum ekki að vinna. Það getur meira að segja vel verið að aukinn stjórnsýslukostnaður sé góð hugmynd af því að ábatinn af því sé enn meiri en ábatinn af einhvers konar hagræðingu fram og til baka á milli stofnana sem þegar eru til. Ábatinn af nýsköpunarstarfsemi er almennt séð mjög mikill. Það á að leggja enn meira í stjórnsýslu nýsköpunarmála til þess að þau geti tekið á móti fleiri umsóknum, til þess að þau geti hjálpað meira þeim frumkvöðlum sem eru að stíga sín fyrstu skref, til að geta lagt betur í þær grundvallarrannsóknir sem liggja undir, t.d. í byggingarrannsóknunum, þannig að við fáum fyrr byggingarefni sem er mygluþolnara og þess háttar, til þess að við þurfum ekki að bíða í áratugi í viðbót og nota efni sem gera það að verkum að skólarnir okkar mygla. Það væri miklu hentugra að vera komin með nýtt byggingarefni áratug fyrr. Það gætum við kannski fengið með því að leggja meira í nýsköpun, alla vega ef það væri stefnan.

Einhverra hluta vegna fáum við þetta. Við fáum að heyra ákvörðun um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands, að færa þessi verkefni yfir í einkarekið fyrirkomulag án þess að útskýrt sé hvernig það skilar mögulega árangri. Í umsögn starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er rakið hvernig einkafyrirtæki myndi sinna rannsóknum sem fá endurgreiðslu út frá rannsóknarfyrirkomulaginu, en eftir stendur að leggja þurfi út ákveðið fjármagn til framtíðartaps á tekjum, þegar allt kemur til alls. Talað er um að tæknirannsóknir séu grundvöllurinn að framtíðaruppbyggingarstarfi, sem eru rosalega erfiðar og áhættusamar í einkageiranum, af því að grunnrannsóknir fara fram löngu fyrir framkvæmd og hagnýtingu tækninnar. Þá er áhættan mun meiri í því að vinna grunnrannsóknir, það er mun hentugra að vinna það í ákveðnum opinberum ferlum. Það minnkar áhættuna og dreifir henni, að hið opinbera styðji grunnrannsóknirnar sem er síðan hægt að hagnýta. Hið opinbera getur mjög vel tekið slíka áhættu.

Svo er það ráðgjöfin varðandi þjónustu við frumkvöðla á fyrstu stigum sem búið er að sýna sig að skilar mjög góðum árangri. Þegar maður hefur eitthvað sem skilar mjög góðum árangri og ætlar að skipta því út fyrir eitthvað annað þá þarf maður að svara rosalega stórum spurningum. Að hvaða leyti skilar nýja fyrirkomulagið a.m.k. sömu góðu niðurstöðum og það sem við höfðum áður? Því er ekki svarað í þessu frumvarpi. Ég hlakka til að sjá hvernig nefndin fer með þetta mál og hvaða spurningar og svör hún fær við þessum að því sem mér finnst vera augljósu göllum í því ferli sem við ættum að vera að vinna eftir við endurskipulagningu á nýsköpunarumhverfi Íslands í heild sinni, sem er mjög áhugavert.