151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

Tækniþróunarsjóður.

321. mál
[18:30]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð. Í frumvarpi þessu felast sérlög um Tækniþróunarsjóð en frumvarpið tengist frumvarpi því sem ég mælti fyrir hér áðan um opinberan stuðning við nýsköpun.

Í frumvarpinu er lagt til að lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007, falli brott. Lagaákvæði sem skjóta stoðum undir starfsemi Tækniþróunarsjóðs er að finna í þeim lögum sem munu falla brott og því er nauðsynlegt að setja um sjóðinn sérlög til að tryggja lagagrundvöll undir áframhaldandi starfsemi hans.

Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á ákvæðum II. kafla laga nr. 75/2007, sem nú fjalla um sjóðinn, að undanskilinni viðbót í ákvæði a-liðar 2. mgr. 1. gr. Í viðbótinni er tiltekið að Tækniþróunarsjóði sé heimilt að styrkja rannsóknir og tækniþróun í samstarfi við erlenda sjóði einnig en í núgildandi ákvæði er aðeins fjallað um tilteknar stofnanir, háskóla og fyrirtæki sem samstarfsaðila. Þannig er í raun verið að flytja ákvæði um Tækniþróunarsjóð sem er að finna í lögum nr. 75/2007, yfir í sérlög og tryggja þannig fulla samfellu í starfseminni.

Í athugasemdum við frumvarpið, sem bárust ráðuneytinu eftir opið samráðsferli, komu fram ábendingar um að rétt væri að endurskoða og útvíkka hlutverk og verksvið Tækniþróunarsjóðs ásamt því að bent var á að nafn sjóðsins endurspeglaði ekki þann stuðning sem sjóðurinn veitir og nær til fleiri sviða en einungis tækniþróunar. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs og það er markmið mitt og ráðuneytisins að af því tilefni verði hugað nánar að framtíðarskipulagi samkeppnissjóðsins sem og metin þörf á breytingum á hlutverki, skipulagi og aðkomu aðila að stjórn Tækniþróunarsjóðs. Umræðan um heiti sjóðsins hefur einnig komið upp reglulega og mun verða unnið að því í framtíðarstefnumótun að finna sjóðnum mögulega annað heiti.

Aðaltilgangur þessa frumvarps sem ég mæli fyrir nú er að flytja ákvæði um sjóðinn í sérlöggjöf svo tryggður sé lagagrundvöllur fyrir starfseminni. Hér er sem sagt ekki um að ræða heildarendurskoðun á Tækniþróunarsjóði eða lagaumgjörðinni í kringum hann.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.