151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

Tækniþróunarsjóður.

321. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú er stefnt að því að setja sérlög um Tækniþróunarsjóð og þá er náttúrlega nauðsynlegt að gæta samræmis í allri lagasetningu er varðar nýsköpun. Það sem ég vildi aðeins ræða við hæstv. ráðherra er nokkuð sem mér finnst vera svolítið óljóst og gæti hugsanlega valdið hagsmunaárekstrum. Við vitum að Tækniþróunarsjóður gegnir lykilhlutverki í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. En hann getur hins vegar ekki verið óháður burðaraðili styrkveitinga, ef svo má að orði komast, til nýsköpunar í landinu á sama tíma og hann er eignaraðili að einstaka sprotaverkefnum. Það er það sem ég skil, alla vega þegar ég fór yfir þetta.

Ef ég fer aðeins yfir 1. gr. þar sem fjallað er um hlutverk sjóðsins, er ýmislegt sem mætti fara aðeins betur, finnst mér, varðandi orðalagið sem þar er. Þar segir að hlutverk Tækniþróunarsjóðs sé að virkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi. Það var það sem ég hnaut svolítið um, hvort eðlilegt sé að þetta fari saman. Tækniþróunarsjóður er samkeppnissjóður og sem slíkur þarf hann náttúrlega að vera óháður og hlutlaus matsaðili umsókna í sjóðinn. Og þá spyr maður: Er hann þá hlutlaus þegar hann er um leið aðili, eins og segir í greininni, á frumstigi nýsköpunar? Ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að skýra þetta svolítið betur út og reyna þá að taka af allan vafa um vangaveltur mínar, hvort þetta sé þá ekki eins og ég sé þetta fyrir mér.