151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

Tækniþróunarsjóður.

321. mál
[18:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svarið við spurningunni er kannski bæði já og nei. Varðandi það atriði að eiga aðild að sprotafyrirtækjum þá er það ekki þannig í praxís hjá Tækniþróunarsjóði, það er ekki þannig í framkvæmd hjá sjóðnum og hann eignast ekki hlut í fyrirtækjum. Það er ekkert í stefnu stjórnar eða annað í dag sem gerir honum það kleift. Að því leytinu til myndi ég segja að áhyggjurnar væru óþarfar. En það er samt alveg sjálfsagt að skoða hvort taka eigi einfaldlega alfarið fyrir það. Það er kannski eitthvað sem nefndin gæti skoðað í meðferð málsins. Ástæðan fyrir því þetta er svona núna er að þetta var svona í lögunum og við erum ekki að gera neinar breytingar nema þessa litlu breytingu sem ég tiltók sérstaklega. Að öðru leyti er þetta bara yfirfærsla á ákvæðum úr gildandi lögum í þetta frumvarp. Þetta eru mínu mati gild sjónarmið hjá hv. þingmanni. Það er kannski eins og um annað í þeim ákvæðum sem fjalla um Tækniþróunarsjóð, að þar eru atriði sem mætti skoða og nafnið er þar á meðal og það atriði sem hv. þingmaður kemur inn á. En við tókum einfaldlega ákvörðun um að gera það ekki núna af því að verkefnið er Nýsköpunarmiðstöð og að finna þeim verkefnum farveg. Og vegna þess að verið er að endurskoða lagaumhverfi Vísinda- og tækniráðs, þar sem Tækniþróunarsjóður er mjög mikilvægt verkfæri, væri það eitthvað sem kæmi síðan í kjölfarið. En ef hægt er að gera einhverjar frekari breytingar í nefndinni, eins og það að taka alfarið fyrir þetta, þá held ég að það séu bara mjög gild sjónarmið sem nefndin ætti að fara yfir án þess að taka að sér einhverja almenna endurskoðun, sem er það sem tekur við næst.