151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

Tækniþróunarsjóður.

321. mál
[18:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að hún mælist til þess að þetta verði skoðað innan nefndarinnar, að alla vega verði tekinn af allur vafi um að hér séu hugsanlegir hagsmunaárekstrar þegar kemur að umsóknum. Sjóðnum berst gríðarlegur fjöldi umsókna og það er hörð samkeppni um styrki. Ef það er eitthvað sem veldur tortryggni er það náttúrlega mjög slæmt og til þess fallið að draga úr trúverðugleika sjóðsins. Það er alls ekki gott og sérstaklega ekki þegar verið er að setja heildarlög um opinberan stuðning við tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun. Ég fagna því þess vegna ef þetta verður skoðað innan nefndarinnar og þessar vangaveltur mínar séu kannski ekki neitt sem við þurfum að hafa áhyggjur af. En þetta blasti við. Þegar ég las þennan texta á hnaut ég um þetta, að hlutverk sjóðsins sé að styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og hann eigi aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar, eins og segir. Það getur valdið misskilningi. Við þekkjum það öll að lög eiga að vera skýr og greinargóð og það er mjög mikilvægt að þetta mál fái góða umfjöllun og að þeir sem koma fyrir nefndina og hafa áhyggjur af þessu — ég veit að það eru aðilar innan þessa geira sem hafa áhyggjur af þessu — verði fullvissaðir um að áhyggjur þeirra séu óþarfar. Þannig að ég fagna þessu svari hæstv. ráðherra og vona að málið verði skoðað ítarlega í nefndinni.