151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að þeim ákvæðum sem snúa að flutningi á réttindum til fæðingarorlofs yfir á hitt foreldrið er verið að horfa til þess að þarna sé átt við foreldri með barni. Það sem er þarna undir er að það komu ákveðnar tillögur frá nefndinni, menn voru að reyna að feta þá braut skynsamlega að stíga þarna inn. Almennt vil ég segja um þetta, en nefndin getur farið dýpra ofan í það, að við vorum að reyna að feta þá braut að opna línuna gagnvart því að við ákveðnar aðstæður væri hægt að flytja fæðingarorlof yfir. Við vildum samt ekki opna þetta það mikið að sá tilgangur laganna glataðist að einstaklingar væru ekki að gera það nema um raunveruleg dæmi væri að ræða. Hvað varðar þetta einstaka atriði þá er átt við það foreldri sem er forsjáraðili barnsins, eins og ég skil það. En ugglaust er hægt að skerpa á þessu í meðförum nefndarinnar og skýra frekar.