151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En eins og ég segi: Ég get ekki kennt hækjunni minni um að ég sé slæmur í bakinu. Það er ekki henni að kenna, ekki frekar en Vinnumálastofnun er um að kenna hvernig þið útfærið ykkar upphæðir. Þetta er bara afsökun. Það breytir engu hvort við erum að tala um 10 milljarða eða 20 milljarða í því samhengi að það eru 83.000 kr. sem einhver sem er í fæðingarorlofi á að fá. Það eru bara gleðitíðindi að þetta sé komið inn en ég get ekki séð hvernig í ósköpunum hægt er að finna þessa upphæð út. Þetta er lægsta upphæð sem hægt er að hugsa sér. Við fundum svona upphæð í búsetuskerðingum, það voru einhverjir sem voru sárafátækir sem voru að fá svona upphæð. Hvernig dettur ykkur þetta í hug? Þið hljótið að geta reiknað þetta út þannig að fólk fái það að lágmarki sem það þarf á að halda. Það er nýtt barn á leiðinni og það kostar peninga.