151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sagði rétt í þessu að tilgangur frumvarpsins væri m.a. að feður, eins og hæstv. ráðherra, tækju fæðingarorlof til jafns við konur. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem veit eins vel og ég að það er mikilvægt að gæta meðalhófs þegar ríkisstjórn og stjórnvöld eru að taka ákvarðanir, hvort ekki hefði verið heppilegra og meira við hæfi og meira í samræmi við meðalhófsregluna að skapa jákvæða hvata fyrir feður til taka fæðingarorlof, t.d. með því að hækka þakið á tekjutengingu, frekar en að neyða alla foreldra í sama box. Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins er frumvarpinu aðallega ætlað að tryggja barni samvistir við báða foreldra en við vitum að þetta mun þýða að sum börn munu missa af mánuði með foreldrum sínum, einfaldlega vegna þess að sumir feður eru betur launaðir en mæður og sumar mæður eru betur launaðar en feður. Hefði ekki verið betra að skapa jákvæða hvata frekar en boð og bönn og forræðishyggju eins og þetta frumvarp ber með sér?