151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða við hæstv. ráðherra um jafnræði. Jafnræðisreglan felur í sér að sambærileg mál eru afgreidd með sambærilegum hætti og ólík mál á ólíkan hátt. Hvergi er munurinn á milli kynjanna jafn áberandi og afgerandi og við barneignir. Ég get gengið með barn, og geng raunar með barn, en ráðherra ekki. Er jafnræði í því að ráðherrann fái nákvæmlega jafn mikinn rétt til leyfis og ég vegna barneigna? Ég get frætt hæstv. ráðherra um að það er heljarinnar átaka að ganga með barn en við gefum konum hvorki sérstakt orlof á síðasta mánuði meðgöngu, eins og er raunar gert á öllum Norðurlöndunum frá 36. viku, né fáum við konur sjálfstæðan rétt til að jafna okkur eftir þetta heljarinnar átak sem fæðing barns er. Er það virkilega í anda jafnréttis og jafnræðis að karlar fái nákvæmlega jafn langt leyfi og konur miðað við verkaskiptinguna í barneignum?