151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:30]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið eins og það er lagt fram hér, gerir ráð fyrir jafnri skiptingu, sex, sex, en að mögulegt sé að flytja einn mánuð á milli, sem þýðir þá að skiptingin getur orðið sjö, fimm. Að einhverju leyti er þá verið að koma til móts við einmitt það sjónarmið sem hv. þingmaður kom inn á.

Að öðru leyti vil ég segja að ég held að það sé mikið jafnréttismál fólgið í þessu frumvarpi. Ég vitna bara aftur til þeirra orða sem voru sögð hér fyrir 20 árum í þessum sal og til þess hvernig aðrar þjóðir hafa horft á árangur þessarar löggjafar, bæði gagnvart jafnrétti, gagnvart aukinni þátttöku feðra í uppeldi barna sinna og gagnvart jákvæðum áhrifum af því fyrir börn að fá að alast upp fyrstu vikur og mánuði í lífi sínu til jafns með föður og móður eða með auknu hlutverki föður. Ég trúi því að þær rannsóknir sem hafa sýnt þetta séu sannar, þær sýna það. Ég trúi því að við séum að stíga hér gott skref hvað þetta snertir. (Forseti hringir.) En við erum þó að tryggja ákveðinn sveigjanleika eins og ég kom inn á í mínu máli.