151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:32]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Já, ég lýsi því aftur yfir að þetta er mikill gleðidagur. Það er ánægjulegt að ríkisstjórnin sé að standa við gefin loforð um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Og ég ítreka að ég fagna því að verið sé að fara aftur til baka til 12 mánaða, eins og samþykkt var hér af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á kjörtímabilinu 2009–2013, en tekið af og stytt af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á kjörtímabilinu sem á eftir kom, sem þó var í styttra lagi. Þetta var eitt af þeirra fyrstu verkum og ég get ekki látið hjá líða að minnast á það af því að við værum komin lengra ef þetta hefði fengið að vera í friði. En ég fagna því sem vel er gert.

Það eru nokkrir hlutir sem ég bæði gleðst yfir og vil þó vekja athygli á. Ég er sammála því sem kemur fram í umsögn embættis landlæknis í samráðsgátt þegar embættið gagnrýnir í rauninni þann hóp sem kom að vinnu við samningu þessa frumvarps. Því að þó að um sé að ræða réttindi fólks á vinnumarkaði þá hefur skilningur samfélags okkar einhvern veginn verið sá að við værum líka að líta á réttindi barnanna til samvista við foreldra. Gildissvið laganna eru engu að síður þannig: „Lög þessi taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs“, en einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli og foreldra í fullu námi.

Þetta miðast við réttindi foreldra en ekki réttindi barna. Þetta er kannski það sem við ættum að skoða næst þegar við fjöllum um breytingar á fæðingarorlofi, hvort við eigum líka að horfa á þetta út frá réttindum barnanna. Það er engu að síður mjög mikilvægt að við viðurkennum þá staðreynd að um áratugaskeið hefur verið unnið í því að jafna rétt kynjanna á vinnumarkaði. Og að gera þetta með þessum hætti er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að jöfnum rétti kynjanna á vinnumarkaði, þ.e. að hvetja karla til töku fæðingarorlofs og tryggja jafnan rétt kynjanna á vinnumarkaði þannig að konur, eða það foreldri sem gengur með barnið, beri ekki skarðan hlut á vinnumarkaði vegna fjarveru í tengslum við meðgöngu og fæðingar. Það skiptir mjög miklu máli. Þess vegna hefur þetta verið þróunin, að reyna einhvern veginn að ýta undir þátttöku beggja foreldra. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að umræðan undanfarna mánuði í tengslum við samningu þessa frumvarps hefur í rauninni opinberað svolítið að þeir einstaklingar sem eru eldri en 35 ára, eldri en fertugt, muna kannski frekar eftir baráttunni fyrir þessum rétti en þeir sem yngri eru og maður finnur að þau sem eru í kringum tvítugt eru mun heitari í þeirri umræðu að fá að ráðstafa öllum mánuðunum sjálf, að eigin vilja og rétti og því sem hentar best.

Ég verð að viðurkenna það þar sem ég stend hér í pontu Alþingis, að ég hef sveiflast mjög í umræðunni um þetta af því að einhver taug í mér segir: Við eigum að leyfa fólki að velja þá aðferð sem hentar því og barni þess best. En því miður er sú tilhneiging að konan taki þá umtalsvert fleiri mánuði, eða það foreldri sem gengur með barn, eins og það er orðað í frumvarpinu — og nú þarf maður að vanda sig að nota það orðalag, en ekki kona og karl og bið ég þá sem hlusta bara velvirðingar, en ég er að reyna að vanda mig. Við þurfum að passa okkur á að muna úr hvaða umhverfi við komum. Við erum að reyna að hafa þetta þannig að við förum ekki aftur til baka til þess umhverfis þegar réttur kynja á vinnumarkaði var gríðarlega ójafn. Það þekkist í ákveðnum löndum um heiminn að konur sem sækja um vinnu eru í fyrsta lagi spurðar: Áttu mann? Ef þær segja nei, er spurt: Ætlar þú að fara að eignast mann? Ætlar þú að fara að fjölga mannkyninu? Ef konan vogar sér að svara þeirri spurningu játandi fær hún síður vinnu. Við verðum að muna það í þeirri umræðu sem hér er. Það er þess vegna sem verið er að reyna að gera þetta eins jafnt og hægt er, bæði vegna réttar þess foreldris sem ekki gengur með barnið, til að fá að tengjast barninu sínu, en líka vegna réttar hins aðilans á vinnumarkaði. En aftur segi ég: Ég hef sveiflast mjög í þessu. Auðvitað fer maður og skoðar þau atriði þar sem um er að ræða einhvers konar ágreining og veltir því fyrir sér hvernig þetta eigi að vera. Í gegnum árin hefur réttur barns sem elst upp hjá einu foreldri verið mjög skertur miðað við rétt barns sem býr með báðum foreldrum og getur notið samvista við þá báða. Gerð er tilraun í þessu frumvarpi til að lagfæra þetta og það er gott. En í 9. gr. frumvarpsins er talað um framsal eða tilfærslu á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Það er t.d. að þegar um er að ræða einstætt foreldri eftir tæknifrjóvgun eða frumættleiðingu á það foreldri alla 12 mánuðina.

Svo er talað um það sem ég ræddi við hæstv. ráðherra áðan, þ.e. nálgunarbannið. Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu og/eða brottvísun af heimili og er af þeim völdum ófært um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess færist sá réttur til fæðingarorlofs sem stofnast hefur og foreldri hefur ekki getað nýtt sér, yfir til hins foreldrisins.

Mig langar aðeins til að taka okkur inn í raunveruleikann. Það er þannig að nálgunarbann er milli fullorðinna aðila, og eftir stutta eftirgrennslan mína hjá ákæruvaldinu þá hefur ekki verið mikið um að nálgunarbanni hafi verið beitt gagnvart einstaklingi annars vegar og hins vegar barni viðkomandi. Það kunna að vera uppi aðstæður sem eru beinlínis fjandsamlegar barninu og fjandsamlegar því foreldri sem barnið býr hjá án þess að úrskurður fáist um nálgunarbann. Og þegar þetta er á öllum 24 mánuðunum þá veltir maður fyrir sér: Á hvaða tímabili getur rétturinn færst yfir? Af því að sex mánuðirnir eru liðnir og það er áfram slæmt ástand en maður nær ekki að fullnýta fæðingarorlofið með barninu, þ.e. hina sex mánuðina, nema á næstu 18 mánuðum — eða reyndar bara næstu 12 mánuðum, rétturinn rennur út við 24 mánaða markið — þá sé ástandið orðið slíkt að það sé orðið hættulegt barninu. Það er ekki einu sinni nóg að það sé hættulegt þeim sem er forsjáraðili barnsins, til að fá úrskurð um nálgunarbann til að hægt sé að nýta þessa mánuði. Þá sér maður fyrir sér hvernig þetta vinnur í rauninni gegn sér með þessu ákvæði. Ég veit að tilgangurinn er góður með þessu, þ.e. að reyna að vernda þá sem eiga á hættu að sæta ofbeldi, en mér sýnist útfærslan á þessu vera þannig að hún gangi ekki alveg upp. Mér sýnist hún ekki vernda það foreldri sem annast barnið og þarf að þola einhvers konar vanvirðandi eða hættulega meðferð.

Svo er einnig veitt undanþága frá skiptingu fæðingarorlofs ef foreldri er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum og er það vel. Það á einnig við vegna afplánunar refsivistar, en jafnframt ef foreldri á hvorki rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks samkvæmt lögum þessum né sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks í öðru ríki. Þá getur hitt foreldrið öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að 12 mánuði. Þetta skiptir mjög miklu máli af því að það er nú þannig að við erum ekki öll með sama rétt til eins sjálfsagðs hlutar og okkur finnst fæðingarorlofið vera í dag. Í þeim tilvikum þar sem um maka er að ræða sem njóta einskis réttar hér á landi og fá mögulega ekki einu sinni dvalarleyfi hafa börn þessara einstaklinga borið mjög skarðan hlut frá borði. Ég tel að þessi breyting sé gríðarlega mikilvæg.

Ég vil aðeins ræða starfshópinn sem kom að endurskoðun laganna, þar eru eingöngu fulltrúar frá vinnumarkaði og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en þarna vantar í rauninni notendur. Það er því miður allt of algengt þegar settir eru af stað starfshópar á vegum framkvæmdarvaldsins, að það vantar notendur. Ég velti fyrir mér Félagi einstæðra foreldra, námsmönnum og listamönnum, af því að listamenn hafa einmitt bent á ósanngirnina í útreikningi Fæðingarorlofssjóðs þegar kemur að rétti til fæðingarorlofs. Þá eru gefnar upp einhverjar tölur sem ekki eru í neinum tengslum við raunveruleikann hjá hinum hefðbundna, sjálfstætt starfandi listamanni sem vinnur 150–200% vinnu en nær ekki upp í 540.000 kr. viðmiðið sem skilgreint er sem lágmarkslaun listamanns í fullri vinnu. Eftir að hafa verið í þeim harkbransa verð ég að segja að 540.000 er bara býsna há upphæð fyrir þá sem eru sjálfstætt starfandi á þeim vettvangi. Það eru mjög óreglulegar tekjur. Stundum koma meiri tekjur. En ef þessu er dreift yfir 12 mánuði eru 540.000 fyrir sjálfstætt starfandi listamenn sem ekki eru á föstum samningi hjá einhverjum húsum eða öðru bara býsna há upphæð. Það sem flokkast undir þessari upphæð er þá hlutfall af 100% starfi. Við sjáum það líka að þetta er nokkuð undir listamannalaunum. Þau eru samt skilgreind sem 100% laun í einhvern ákveðinn tíma, þannig að þarna fer ekki alveg saman hljóð og mynd. Ég held að við þurfum að skoða þetta.

Í lokin vil ég segja að ég hlakka til að vinna þetta mál í hv. velferðarnefnd en hefði viljað fá málið inn fyrr svo við fengjum nú góðan tíma, af því að við verðum að klára það fyrir áramót. Og aftur er þessu skutlað inn rétt fyrir mánaðamótin nóvember/desember. Því miður gefst nefndinni ekki fullnægjandi tími til að vinna þetta mál. Þrátt fyrir að það hafi verið heilt ár til stefnu þá fáum við það svona seint. En aftur vil ég segja að sú ákvörðun að hafa fæðingarstyrkinn annars vegar 190.000 kr. og hins vegar rúmlega 80.000 kr. eftir því hvort maður er námsmaður eða utan vinnumarkaðar er of lág fjárhæð. Ég held að við séum öll sammála um að þetta sé of lág fjárhæð. Það er eiginlega með ólíkindum að hún skuli hreyfast svona hægt.