151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er tvennt sem mig langar til að koma inn á, það þarf að drepa á mörgu. Áður en ég fer í þau tvö atriði vil ég fagna þeim jákvæðu orðum sem hv. þingmaður hafði um þetta mál og þá miklu réttarbót sem það felur almennt í sér. Vissulega eru þarna atriði sem hv. þingmaður benti á í máli sínu og ég ætla að reyna að koma inn á tvö þeirra.

Varðandi fæðingarstyrkinn vil ég segja, eins og ég sagði í ræðu minni og eftir andsvör við henni, að við erum að ráðast í aðgerðir sem bæði miða að því að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til að skapa jákvæða hvata sem kallað hefur verið eftir. En það er alveg ljóst að verkefninu er ekki lokið. Þó að við séum á þessu kjörtímabili að ráðast í 10 milljarða aðgerðir til að bæta fæðingarorlofskerfið okkar og í því felist margar umbætur sem hv. þingmaður kom inn á í sínu máli, þá er verkefninu ekki lokið. Skárra væri það, þá gætum við bara pakkað saman og farið heim. Við þurfum að halda áfram. Næstu verkefni sem þarf að ráðast í eru fæðingarstyrkurinn, þessi lágmörk, og það sem snýr að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. En það gerir ekki lítið úr þeim aðgerðum sem við ræðum hér.

Varðandi nálgunarbannið og þá umræðu sem hv. þingmaður fór inn á vil ég segja að hv. þingmaður er bæði með meiri menntun og reynslu á því sviði en sá sem hér stendur, bara svo að það sé sagt. Ég veit að í fyrri störfum sínum kom hún talsvert nálægt svona málum. Þetta er eitt af því sem við skoðuðum á milli samráðsgáttar og þess frumvarps sem síðan er lagt fram. Kann að vera að það séu einhverjar glufur í þessu? Það kann að vera. Þess vegna erum við að koma með þetta hér til þingsins. Ég vil bara þakka fyrir þessar ábendingar hv. þingmanns. Ég heiti því, ef þessar glufur eru til staðar — ég hef bara ekki nægilega persónulega þekkingu til að geta metið það — að ráðuneytið vinni með nefndinni í því að finna leiðir til að loka þeim.