151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:48]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Já, við erum ekki hætt, við erum bara á leiðinni. En öll skref í framfara- og réttlætisátt eru af hinu góða. Ég held að við ættum að skoða aðeins hvernig staðan er annars staðar á Norðurlöndum. Það kemur fram, í umsögn landlæknis á samráðsgátt, að við séum að búa til kerfi sem er að mörgu leyti mjög ólíkt því sem er annars staðar á Norðurlöndum varðandi einmitt þessa skiptingu. Ég veit ekki hvort þau séu þá svona aftarlega á merinni þegar kemur að réttindum fólks á vinnumarkaði eða hvað það er sem veldur því. Það væri auðvitað frábært ef við hefðum tíma til að vinna það í nefndinni, en því miður höfum við það ekki.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðherra segir, næsta verkefni er að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þar skiptir mestu máli í mínum huga að við reynum að tryggja jafnræði milli barna eftir því í hvaða sveitarfélögum þau búa. Það er ekki til staðar í dag. Sum sveitarfélög eru að opna hvern ungbarnaleikskólann á fætur öðrum, færa leikskólann niður. En önnur sveitarfélög eiga bara enga möguleika á að fara í það, sérstaklega ekki nú í því árferði sem er vegna Covid þegar allur gangur er á því hvort ríkið ætli að styðja við bakið á sveitarfélögunum. Þetta er klárlega næsta verkefni. Ég veit að nefndin mun leggja sig alla fram við að laga mögulega agnúa í þessu máli og gera allt sem hún getur til þess að það verði betra fyrir alla.