151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sannarlega tekið undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur að þetta er gleðidagur, að við skulum loksins, vonandi, vera að festa í sessi 12 mánaða fæðingarorlof. En mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það hvort henni finnist t.d. eðlilegt að foreldrar skuli ekki fá að ráða því sjálfir hvernig þeir deila þessum 12 mánuðum. Mig langar til þess að grípa niður í pínulítinn pistil sem ég var að lesa inn á heilsugæslu.is, sem fjallar um brjóstagjöf og mikilvægi hennar fyrir barnið, því að þetta snýst ekki bara um foreldra og samskipti heldur líka tengslin við barnið og hvernig því líður á fyrsta ári ævinnar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Brjóstagjöfin er ein sú besta gjöf, sem okkur hefur verið gefin. Hún hefur jákvæð áhrif á andlegt sem líkamlegt heilbrigði móður og barns og er einstök aðferð til samskipta milli þeirra. Þessi nánd skapar tækifæri til tengslamyndunar og barnið öðlast traustan grunn fyrir lífið. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er tími sem ekki kemur aftur.“

Mig langar til að fá það fram hjá hv. þingmanni hvað henni finnst um mikilvægi brjóstagjafarinnar fyrir barnið því að eitt er víst, við göngum náttúrlega með barnið og það er alveg á hreinu að pabbinn, alveg sama hversu mikið hann myndi vilja það, getur sannarlega ekki gefið barninu brjóst. Ég er kannski af svo gömlum skóla, ég veit það ekki, en mér finnst í rauninni algjört lágmark í öllu því frelsi sem við erum að tala um, einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi, ritfrelsi, skoðanafrelsi og öllu frelsi, að foreldrar eigi líka að fá frelsi um það. Sumar mæður eru bara alls ekkert með börnin á brjósti og þær vilja kannski vinna meira og þá er það kannski pabbinn sem kemur inn í því tilviki. En númer eitt, tvö og þrjú langar mig að spyrja hv. þingmann um þetta, út frá bara frelsi.