151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[20:33]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér nýja heildarlöggjöf um fæðingar- og foreldraorlof. Það er mikið fagnaðarefni að verið sé að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum, sem það var í fyrra, upp í 12 mánuði, en það er tíu mánuðir nú á þessu ári og gekk sú breyting í gegn um síðastliðin áramót. Í þessari nýju löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof eru mörg atriði sem er verið að laga en þarfnast samt sem áður frekari skoðunar eins og staða einstæðra foreldra og þeirra foreldra sem fæða andvana barn, staða forsjárforeldra og fleiri, en það má líka nefna aðstæður fólks sem býr fjarri fæðingarþjónustu svo dæmi séu tekin. Það sást glöggt á þeim fjölda umsagna sem komu inn á samráðsgátt stjórnvalda um þetta mál sem við ræðum hér hvað það eru mörg atriði sem þarf að ræða og fara yfir og hversu fjölbreytt þetta mikilvæga mál er.

Ég hlakka til að takast á við þessi viðfangsefni hjá hv. velferðarnefnd. Ég verð þó að segja að það kom mér verulega á óvart hversu lítið mark var tekið á þeim 280 umsögnum sem komu um málið á samráðsgáttina. Ég tel að það verði hlutverk hv. velferðarnefndar að mæta þeim áhyggjum sem birtast í öllum þessum umsögnum. Þó vil ég fagna einni af þeim breytingum sem hafa orðið á málinu frá því að það var í samráðsgáttinni; svigrúm foreldra til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verður áfram 24 mánuðir en ekki 18 mánuðir eins og stóð í upphaflegu frumvarpsdrögunum á samráðsgáttinni.

Ég ætla því að beina athygli minni í ræðu þessari helst að því atriði sem er hvað umdeildast og um leið mikilvægast í þessu máli. Það er skipting mánaðanna 12 á milli foreldra og svigrúmið sem foreldrum er gefið til að aðlaga fæðingarorlofið sem best að fjölskylduaðstæðum hverju sinni og þar með að tryggja hag barnsins.

Það er ábyrgðarmikið hlutverk að takast á hendur að verða foreldri og fylgjast með barninu sínu vaxa úr grasi. Foreldrar og stjórnvöld eru skuldbundin til að gera ávallt það sem er barninu fyrir bestu. Og við þurfum að gera það í takt við tímann. Við lifum í breyttu þjóðfélagi þar sem jafnrétti hefur aukist og atvinnuþátttaka kynjanna hefur jafnast. Nýjar kynslóðir hafa þróað með sér aukna jafnréttisvitund, gildin gagnvart fjölskyldunni hafa styrkst og þróast og fjölbreytileikinn í fjölskyldusamsetningu og fjölskylduaðstæðum hefur stóraukist. Við erum ekki enn þá með samfélag þar sem einungis karl og kona mynduðu fjölskyldu og karlinn vann tvær til þrjár útivinnur með endalausum aukavinnutímum á meðan konan var heima að sjá um heimilið. Þetta er liðin tíð til allrar hamingju.

Stjórnvöld tryggja því ekki hag barnsins og rétt þess til að eiga samvistir við báða foreldra sína best með forræðishyggju og lagaboði samkvæmt kröfum aðila vinnumarkaðarins. Stjórnvöld tryggja hag barnsins sem best með því að veita foreldrum þess sem mest frelsi og svigrúm til að haga málum hverrar fjölskyldu þannig að það henti barninu sem best og veiti þannig foreldrum tækifæri til að standa undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að ala upp barn. Það hefur núverandi fyrirkomulag fæðingarorlofsins margsannað þar sem einn þriðji fæðingarorlofsins er sveigjanlegur.

Þessu til staðfestingar er hægt að nefna það hvað aðstæður fjölskyldna eru orðnar fjölbreyttar og þær verða alltaf fjölbreyttari. Til þess að mæta hag barnsins hverju sinni við svo fjölbreyttar aðstæður er ekki hægt að semja lög sem ná utan um það allt saman. Það verður að treysta foreldrunum sem þekkja sínar aðstæður best og hvernig best verður úr þeim unnið og við verðum að taka mið af því. Undir þetta taka t.d. landlæknir, ljósmæður og fjöldi foreldra sem og aðrir aðilar sem sendu inn umsagnir á samráðsgáttina um þetta mál. Fjölskyldur í dag búa við fjölbreyttari vinnumarkað þar sem gildi fjölskyldunnar hefur breyst töluvert. Ég tók sjálfur eftir því á þeim tíu árum sem ég starfaði sem lögreglumaður hversu hratt það breyttist á þeim vettvangi. Það var nú þekkt að lögreglumenn unnu mikla yfirvinnu og tóku margar aukavaktir á meðan þeir byggðu húsið sitt og annað slíkt. Það var minnsta mál, þegar ég byrjaði í lögreglunni um 2004, að manna aukavaktir. Það var bara eitt það auðveldasta fyrir yfirstjórn lögreglunnar að manna aukavaktir, allir tilbúnir að taka þær. En hratt eftir að ég byrjaði í lögreglunni fóru menn að finna fyrir því að þetta varð miklu erfiðara þar sem tíminn með fjölskyldunni skipti miklu meira máli. Í dag er þetta orðið mjög erfitt. Við erum farin að ræða í lífskjarasamningum og öðru um styttingu vinnuvikunnar og annað slíkt. Fjölskyldustefnan og barnahornin í fyrirtækjunum eru sönnun þess að fjölskyldan er farin að hafa miklu sterkari stöðu. Umönnun barna hefur líka tekið breytingum þegar jafnréttisstaðan hefur batnað, þannig að við verðum að horfa á þessa löggjöf út frá þeim árangri sem við höfum náð og út frá fleiri tækjum sem hafa komið til í jafnréttisbaráttunni.

Og talandi um jafnrétti og hvort við eigum að nota fæðingarorlofslöggjöfina sem mjög sterkt jafnréttistæki, sem var rétt á sínum tíma þegar hún kom árið 2000, þá þurfum við svolítið að horfa á breyttar aðstæður og færa okkur miklu meira yfir í það að horfa á hag barnsins þegar við höfum náð svona miklum árangri. En með því að horfa á frjálsari skiptingu erum við samt sem áður áfram vinna að jafnréttismálum. Það er ekki þar með sagt að þá séum við að útiloka jafnréttismálin.

Raunveruleikinn er sá að það eru mæður sem ganga með barnið og í mjög miklum meiri hluta tilvika velja þær að taka þá mánuði sem þær hafa til umráða og skipta þeim niður á 12 mánuði til að framlengja orlofið. Með þeirri aðgerð lækka greiðslurnar sem þær fá á hverjum mánuði frá Fæðingarorlofssjóði og þær eru um leið orðnar fjárhagslega háðari maka sínum eða hinu foreldrinu. Ég get ekki séð mikinn jafnréttisvinkil í þessu. En talandi um þessar greiðslur og það að þurfa að skipta þeim á mánuði og annað slíkt þá tel ég það vera barninu fyrir bestu að það fái þessa 12 mánuði í umönnun með foreldrum sínum. Þá skulum við hafa það í huga að við náum sjaldnast 12 mánaða samfellu þar sem foreldrar velja að vera saman með barnið að lágmarki fyrsta hálfa mánuðinn og oftast fyrsta mánuðinn eftir fæðingu barns. Oft er búið að taka eitthvað af orlofinu fyrir fæðinguna og það þarf að horfa í það. Þannig hefur okkur ekki tekist að brúa bilið þar sem fæst sveitarfélögin eru með tryggð dagvistunarúrræði frá 12 mánaða aldri og varla, held ég, hægt að tala um fyrir það, þannig að það er enn þá bil, eins og hefur mikið verið rætt hérna, sem þarf að brúa.

Ég skil hvaðan hugmyndin um jafna skiptingu, sex, sex, kemur í þessari umræðu. Allar tölur sýna það að eftir því sem réttur þess foreldris sem gekk ekki með barnið er aukinn, þá eykst takan. Ef við tölum bara eins og allir hugsa þetta þá taka feðurnir þá mánuði sem þeim er úthlutað. Þess vegna er mikilvægt að auka réttinn af því að það liggur við að það sé sagt með mömmurnar að þær leyfi þeim ekki að fá nema það sem þeir eiga rétt á, því sé mikilvægt að lengja þetta. Því miður er það sagt. Svo koma næstu rök á eftir, að það sé barninu fyrir bestu að fá jafna umönnun, það myndi jafn mikil tengsl við báða foreldra og þekki báða foreldra sína jafn vel. Ég tek undir það. Tengsl við báða foreldra skipta gríðarlegu máli og það er réttur barnsins. En ég tel bara ekki sjálfsagt að þessi skipting nái þessu markmiði. Það er mikill munur á þremur mánuðum og upp í sex mánuði og getur farið mjög mikið eftir aðstæðum hverju sinni. Það er ekki sjálfgefið þó að makinn sem gekk ekki með barnið nýti þessa þrjá mánuði að fullu í dag, ef þeim er fjölgað í sex, að hann hafi tök á því eða aðstaða leyfi það að allir sex mánuðirnir séu nýttir eins og þessir þrír. Maður veit ekki hvenær fer að skilja þarna á milli. Ef það skilur einhvers staðar þarna á milli er hætt við að einn, tveir og allt að þrír mánuðir, sem barnið hefði annars fengið, fari í ruslið, eins og var nú oft orðað í umræðunni um þetta á samráðsgáttinni og víðar. Það er ekki það sem við viljum. Það er ekki barninu fyrir bestu að einhverjir mánuðir detti niður ónýttir.

Þá langar mig líka að koma inn á að það skiptir ekki bara miklu máli fyrir barnið að hafa samvistir við foreldra sína og þiggja frá þeim umönnun heldur þurfa foreldrarnir að hafa aðstæður til þess og jafnvægi og annað, rólegheit og afslappað andrúmsloft, þetta skiptir allt máli varðandi brjóstagjöfina, varðandi fyrstu upplifun barnsins og þessa tengslamyndun. Því verður tæplega náð ef fjárhagsáhyggjur eru að sliga foreldra meðan á þessu stendur. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að við séum að setja á löggjöf sem kemur verst fyrir þær fjölskyldur sem hafa lægstar ráðstöfunartekjur. Þetta sýna margar tölur og staðreyndir frá Svíþjóð og fleiri stöðum, að ef tekjuhærra foreldrið þarf að taka sex mánuði í fæðingarorlof á aðeins 80% af tekjum, sem voru of lágar fyrir heimilið fyrir, svo er komið nýtt barn inn á heimilið, og fólk verður að vera í sex mánuði á bara 80% tekjum til þess að barnið fái alla þá umönnunarmánuði sem það á rétt á samkvæmt fæðingarorlofslöggjöfinni, þá vitum við ekki í hvaða stöðu við erum að setja það fjölskyldulíf og hvernig tengslamyndun við barnið verður í því ástandi. Þetta finnst mér gríðarlega stórt atriði sem við þurfum að hafa í huga.

Nú er fjölskyldusamsetning orðin fjölbreytt. Það er móðir og móðir, faðir og faðir og annað slíkt. Atvinnuþátttaka kvenna hefur margfaldast og er orðin jafnari, dregur alltaf meira og meira á launamuninn og við svo fjölbreyttar aðstæður getur ekki stóri bróðir, þ.e. löggjafinn, verið ofan í foreldrum og sagt: Hvernig sinnið þið ykkar hlutverki best? Við ætlum að skrifa það inn í lögin. Það gengur bara ekki upp. Við erum öll stolt af þeim árangri sem við höfum náð með þeirri löggjöf sem við höfum núna. Við erum mjög stolt af því. Þess vegna þurfum við að breyta út frá því sem við sjáum að hún hefur skilað ásamt því að við höfum náð árangri með mörgum öðrum úrræðum og vinnum áfram að því.

Svo hefur okkur nú oft orðið tíðrætt í þessum sal um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Þá spyr ég: Hvar er sjálfsákvörðunarréttur fjölskyldunnar? Og svo líka bara þetta: Ég veit alveg að fæðingar eru ekki sjúkdómur en þetta reynir misjafnlega á líkama kvenna, brjóstagjöfin gengur misjafnlega og enn og aftur: Aðstæður eru mismunandi og því verðum við að leyfa fjölskyldum að hafa svigrúm út frá öllum þessum breyttu aðstæðum.

Til að ná þessum markmiðum tel ég ekki rétt að skipta þessum tíma í sex mánuði og sex. Mér finnst vera lágmarksmálamiðlun, þangað til að við erum komin enn lengra í jafnréttismálunum og enn lengra í þessu öllu saman, að hafa skiptinguna fjórir, fjórir, fjórir. Mér þykir það hin rétta skipting að svo stöddu. Þá erum við að halda áfram með það kerfi sem við höfum verið með en í framtíðinni sjáum við náttúrlega fyrir okkar að fjölskyldan ráði þessu alveg.

Með því að gefa meira frelsi núna þá sjáum við hvernig nútímakynslóðir eru með allt önnur viðhorf. Það yrði góð mæling á því hvert jafnréttisástandið er, hlutverkaskipting kynjanna og þáttaka í fjölskyldulífi og annað. Það væri góð mæling á það að hafa meira frelsi.

Að lokum ætla ég bara segja þetta: Til þess að ná þeim markmiðum sem verið er að reyna að ná með frumvarpinu þurfum við að hækka greiðslurnar, það mun hjálpa mikið til að ná þessu markmiði, og við þurfum að fjölga mánuðunum enn frekar af því að 12 mánuðir munu ekki duga. Við eigum að gera hvað sem við getum til að hjálpa fjölskyldum þessa lands að eignast börn og fjölga okkur.