151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[20:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál, frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Loksins, eftir mjög langan tíma, er svo komið að fæðingarorlof sameiginlega á milli foreldra er komið upp í eitt ár, sem er vissulega framfaraskref og löngu kominn tími til. Ég vil svona í fyrstu atrennu, í 1. umr. um þetta mál, ræða um stóru drættina, stóru línuna, stóru afstöðuna sem tekin er í þessu frumvarpi og fara ekki of mikið út í smáatriði á þessum tímapunkti, enda held ég að velferðarnefnd muni halda vel á þeim málum og komast að góðum niðurstöðum gagnvart agnúum sem finna mætti í þessu frumvarpi.

Hins vegar verð ég aðeins að tala um umræðuefni sem ég tók fyrir með hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni í andsvörum við flutningsræðu hans, um markmið þessara laga um jafnrétti og jafnræði, hvort markmiðum þessara laga sé virkilega náð með þeim aðferðum sem beitt er í frumvarpinu. Markmiðin eru samkvæmt frumvarpinu sjálfu, með leyfi forseta, „… að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Þá er lögum þessum ætlað að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“

Það hafa komið fram athugasemdir um að auðvitað ætti þessi réttur að vera réttur barnsins til samvista við báða foreldra, vissulega, en það er ekki alltaf raunveruleikinn að báðir foreldrar séu til staðar. Markmiðið um að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu og atvinnulíf er vissulega gott líka. En ég velti fyrir mér hvort það eigi ekki að vera markmið okkar að samræma atvinnulíf við fjölskyldulíf. Erum við ekki að halda áfram að tosa í vitlausan enda? Alltaf eru það foreldrar, alltaf eru það mæður sem skulu aðlaga sig að þörfum vinnumarkaðarins en ekki öfugt.

Og af því að við erum að tala um einstaklinga núna en ekki einhvern ótilgreindan vinnumarkað þá vil ég segja að jafnrétti er vissulega göfugt markmið. En við verðum að gæta meðalhófs í því hvernig við setjum fram réttindi einstaklinga. Þegar markmiðið er að tryggja jafnrétti á milli karla og kvenna á vinnumarkaði, eins og mér heyrist vera undirliggjandi markmið, þá mætti hugsa hvort aðrar og mildari leiðir en að takmarka valfrelsi foreldra um nýtingu fæðingar- og foreldraorlofs með þessum hætti séu í boði, t.d. með því að skapa jákvæða hvata fyrir feður til þess að taka foreldraorlof, t.d. með því að bjóða upp á að það sé fjárhagslega jákvætt fyrir fjölskyldur að eignast barn. Það er vissulega þjóðhagslegur ábati í því falinn að fjölskyldur sjái sér fært að eignast börn. Eins og staðan er núna þá felur það alla jafna í sér tekjumissi, fjárhagslegt tap, að eignast börn. En ef við hugsum aðeins fram í tímann, lengra en næstu ár og árin þar á eftir, þá vitum við að dreifingin og þróunin í íslensku samfélagi er sú að við verðum sífellt eldri og það verða sífellt færri ungir til að halda vinnumarkaðnum og samfélaginu gangandi. Við hljótum að vilja að það sé hvati til að það komist á meira jafnvægi heldur en stefnir í á milli ungra, fullorðinna og aldraðra. Það er gríðarlegur þjóðhagslegur ábati í því falinn að konur sjái að það sé jákvætt fyrir þær, líka fjárhagslega, að eignast börn.

Því hver er staðan sem við erum í núna? Við erum með unga kynslóð sem hefur það verra en foreldrar sínir fjárhagslega, fyrsta kynslóðin í heila öld sem er verr stödd með eigið fé, með húsnæði, frama og framgang og öryggi, en foreldrar sínir. Hvatarnir sem þessi kynslóð, sem er á barneignaaldri núna, hefur til að eignast börn eru fáir. Stuðningur við barnafjölskyldur er lítill og það að taka fæðingarorlof kostar peninga, beinharða peninga fyrir fjölskyldur vegna þess að einstaklingar fá bara 80% af sínum tekjum, þú verður sem sagt fyrir 20% tekjumissi ef þú tekur orlof með barninu þínu, og töluvert meiri tekjumissi ef mánaðarlaun eru hærri en 600.000 kr. á mánuði eða 800.000 kr., hvernig sem maður reiknar þessi 20% til.

Eins og staðan er núna eru neikvæðir hvatar gagnvart barneignum og það eru neikvæðir hvatar gagnvart því að taka fæðingarorlof. Mér finnst bara byrjað á vitlausum enda hérna. Ég vil hvetja fólk til að eignast börn. Við viljum virða rétt allra barna til samvista við foreldra sína. Gerum það ekki með því að skilyrða hvernig foreldrarnir ráða högum sínum. Þetta er eins og að setja fólk í fjárhagslega spennitreyju, barnið eða peningana. Annaðhvort getur þú tryggt fjárhagslegan grundvöll fyrir því að barnið þitt lifi mannsæmandi lífi eða þú getur notið samvista við barnið. Þetta eru valkostirnir sem við erum að bjóða upp á akkúrat núna í nafni jafnréttis. En við hljótum að spyrja: Jafnrétti fyrir hverja? Er þetta jafnrétti fyrir börnin? Er hægt að mismuna börnum þar sem annað foreldrið er tekjuhærra heldur en hitt, þar sem fjölskyldur sjá sér ekki fært að skipta orlofinu jafnt vegna þess að það myndi fela í sér of mikla tekjuskerðingu fyrir heimilin, fyrir fjölskylduna?

Það er vissulega meiri hluti karlmanna sem hefur hærri laun en konur en það breytir því ekki að börn sem eiga feður sem eru tekjuhærri en mæðurnar eiga jafn mikinn rétt á að njóta samvista við foreldra sína í 12 mánuði og börn sem eiga móður sem er tekjuhærri en faðirinn eða þar sem foreldrarnir eru á einhvern undraverðan hátt jafn tekjuháir. Þetta mismunar börnum innflytjenda. Við höfum heyrt frásagnir ljósmæðra sem segja frá því að t.d. pólskum feðrum sé hótað starfsmissi dirfist þeir að taka fæðingarorlof. Þetta er fólk með lítið bakland hér, oft litla réttarvernd, lítinn stuðning í kerfinu. Jafnrétti er göfugt markmið, en við þurfum að spyrja okkur hvort það þjóni jafnræði, þ.e. að sambærileg mál séu meðhöndluð á sambærilegan hátt, ólík mál séu meðhöndluð á ólíkan hátt.

Ég vil endurtaka það sem ég ræddi við hæstv. ráðherra í andsvari við hann um að munurinn á milli kynjanna sé hvergi jafn afgerandi en þegar kemur að barneignum. Sannarlega er það svo að barneignir eiga ekki að hafa neikvæð áhrif á starfsframa kvenna. Hvernig getum við unnið gegn þeim neikvæðu afleiðingum af þessu mikilvæga hlutverki kvenna án þess að það bitni á börnunum þeirra, án þess að mismuna börnum? Þetta frumvarp tekur ekki á því. Það svarar ekki þeirri spurningu.

Sömuleiðis finnst mér að það þurfi að koma betur til móts við konur og mér finnst að atvinnulífið eigi að koma betur til móts við konur vegna þess að atvinnulífið hefur líka hag af því að við höfum nóg af ungu fólki til að taka þátt í blessuðu atvinnulífinu. Það tekur á að ganga með börn og eignast þau og það að konur geti tekið einn mánuð af fæðingarorlofsrétti sínum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag tekur þann mánuð af svokölluðum sjálfstæðum rétti barnsins til samvista við foreldri sitt, einmitt foreldrið sem á að vera með barn á brjósti og foreldrið sem þarf mögulega mánuð eða tvo eða jafnvel lengur til að jafna sig eftir barnsburð. En það er eins og þetta sé ekkert hluti af breytunni. Nei, það skal skipt alveg jafnt, gjörsamlega burt séð frá mjög misjöfnu vinnuframlagi karla og kvenna þegar kemur að barneignum.

Mér finnst a.m.k. mikilvægt að við aðlögum vinnumarkaðinn að þörfum barnafjölskyldna og bjóðum frekar upp á t.d. skattafslætti eða styrki til fyrirtækja þar sem orlofstaka allra kynja er studd, eða hvernig væri ef við myndum a.m.k. ekki setja fjölskyldufólk í fjárhagslega spennitreyju? Við ættum að gefa fjölskyldum fjárhagslegan ábata og stuðning við barneignir, ekki valda því tekjuskerðingu við barneignir. Ég vil bara endurtaka það að við erum ekki að yngjast sem þjóð. Það er þjóðhagslegur ábati af því að auka barneignir og auðvelda barneignir en til þess þurfa að vera jákvæðir hvatar, ekki neikvæðir hvatar.

Núna er markmiðið að tryggja að feður taki fæðingarorlof til jafns við konur. Löggjafinn getur vissulega haft áhrif með lagasetningu í átt að jafnrétti. Stundum er betra að nálgast hlutina ekki með valdboði að ofan með því að gefa fólki ekkert val heldur með jákvæðum hvötum, með hvatningu.

Ég vil að lokum benda á orð hæstv. ráðherra í flutningsræðu sinni þar sem hann talaði um að það væri aldrei hægt að búa til kerfi utan um fæðingarorlof sem hentaði þörfum allra foreldra og ég vil segja, hæstv. forseti, að nákvæmlega þetta viðhorf er það sem er gallinn í þessu frumvarpi. Þörfum allra foreldra. Ef ætlunin með þessu frumvarpi er að tryggja börnum samvistir við foreldra sína, ef rétturinn er barnanna, þá hljótum við að smíða frumvarp sem mætir þörfum allra barna burt séð frá stöðu foreldra þeirra, hvort sem foreldrarnir eru karl eða kona eða önnur kyn. Við hljótum að sjá að það er ekki réttlætanlegt að mismuna börnum á grundvelli þess að það eigi foreldri sem er tekjuhærra en hitt foreldrið, það eigi foreldri sem er innflytjandi, það eigi eitt fjarverandi foreldri eða það eigi föður sem er ekki tilbúinn að taka fæðingarorlof einhverra hluta vegna. Við hljótum að vilja nálgast lög um fæðingarorlof með það að markmiði að mæta þörfum allra barna. Mér finnst ótrúlega leiðinlegt að hæstv. félags- og barnamálaráðherra líti svona illilega fram hjá réttindum barnsins í þessu tilliti.