151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ég ætla ekki að halda því fram að hér sé algjört jafnræði þegar kemur að meðgöngu og fæðingu barna. Það er alls ekki svo. Ég og hv. þingmaður vitum það báðar tvær, ég hafandi gengið með þrjú börn og hún ófrísk að sínu fyrsta barni — innilega til hamingju með það — að það tekur á. Þess vegna geta konur tekið fæðingarorlofið fyrr óski þær þess. En það er alveg rétt að þá gengur það á réttinn eftir að barnið fæðist. Konur eru líka gjarnan það sem oft er kallað „sjúkraskrifaðar“, ef aðstæður þeirra eru slíkar að þær geta ekki sinnt starfi sínu og eru þá í veikindaleyfi síðasta hluta meðgöngu. Það er mjög algengt að konur minnki við sig vinnu á síðasta mánuði eða undir lok meðgöngu.

Auk þess eru auðvitað frekari réttindi ef konan verður mjög veik, annaðhvort fyrir eða eftir meðgöngu. Og það eru auðvitað réttindi sem við þurfum að horfa til og ég er alveg sammála því. Við höfum ekki náð jafnrétti, sagði ég hér áðan og ég er ekki að fara að berjast fyrir því að bæði kynin gangi með barn, það er ómögulegt. Þetta er eitt af því sem við munum aldrei breyta. Það verða alltaf einhver önnur sjónarmið uppi þegar kemur að konum og þess vegna taka auðvitað flestar mæður fæðingarorlof sitt strax í upphafi. Sængurlegan er auðvitað veikindaleyfi þannig séð. Þær þurfa á þessari sængurlegu að halda.

En eins og ég sagði áðan lít ég fyrst og fremst á þetta sem stórt, mikilvægt og jákvætt skref. Ég hef ekki horft á það þannig að þetta séu einhvers konar boð og bönn heldur frekar einmitt jákvæður hvati, að við séum að bjóða fólki upp á þann möguleika að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og njóta samvista með barninu sínu. Ég held að stærsta skrefið því miður til að hvetja feður til enn frekari töku fæðingarorlofs sé þakið á greiðslurnar (Forseti hringir.) og ég segi „því miður“ vegna þess að karlar eru því miður enn þá með hærri laun en konur og það er ekkert jafnrétti fólgið í því. (Forseti hringir.) Þess vegna var það mikilvægt þegar við hækkuðum þakið og ég held að við þurfum að horfa á enn frekari hækkun á því þaki. (Forseti hringir.) Ég held að það sé stærsta næsta mál (Forseti hringir.) þegar við höfum náð fram þessu frábæra máli um 12 mánaða fæðingarorlof.