151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:32]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Frú forseti. Við höfum átt ágætisumræður í kvöld um þetta mál um fæðingar- og foreldraorlof. Mig minnir að fyrir um ári hafi ég einmitt komið hér upp á eftir hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, þar sem hún var rétt svo búin að ræða um þessa skiptingu. Einhvern veginn vorum við farin að hljóma eins og við værum að ræða markatölur, þetta er annaðhvort sex, sex eða fimm, tveir, sjö eða 12. Það sem ég ætla að fjalla um er einmitt þetta, við skulum segja bara 12. Ég, ásamt félögum mínum í þingflokki Miðflokksins, ætla að leggja fram breytingartillögu við þetta frumvarp þess efnis að foreldrar eigi rétt til sameiginlegs fæðingarorlofs í 12 mánuði og að sama skapi rétt til að skipta þessum 12 mánuðum með sér eins og hentar barninu best og hentar foreldrum best.

Það eru ótal álitamál sem vakna við lestur frumvarpsins. Það má til að mynda segja að í kaflanum um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar sé nauðsynin sú að nú séu 20 ár liðin frá því að lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi og því sé rétt að aðlaga fæðingarorlofskerfið að þeirri miklu þróun sem hefur orðið í samfélaginu, og ég tek undir það, þar á meðal í jafnréttismálum og á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Fæðingar- og foreldraorlof er vissulega vinnumarkaðsúrræði, eins og það er kallað, en á sama tíma þarf það jafnframt að rúma sjónarmið foreldra, hvað hentar þeim og barninu hverju sinni. Að mínu mati er það beinlínis ákveðið í þessu frumvarpi að skikka hvort foreldri til þess að taka sex mánuði, skulum við segja, innan knapps tímaramma en þeim sé svo leyfilegt að skipta einum mánuði á milli sín. Þetta er sagt vera til þess að koma til móts við aðstæður fjölskyldna.

Það má vera satt að það liggi eitthvert réttlæti í þeim orðum en þó fæ ég ekki alveg séð hvernig þetta á að standast þá tíma sem við lifum í dag, sérstaklega hvernig þetta á að gagnast stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Aðstæður foreldra eru mismunandi og hvað gerist ef annað foreldrið hefur ekki tök á að taka sína sex mánuði? Falla þeir þá niður? Eins og fram hefur komið hér í umræðunni fær barnið þá aðeins tækifæri til að njóta samvista annars foreldrisins. Foreldrar vilja auðvitað vera með börnum sínum og það sem birtist í þessu frumvarpi mun ekki gera annað en að skapa hugsanlega sektarkennd og jafnvel skömm hjá því foreldri sem einhverra hluta vegna getur ekki nýtt sér sinn hluta. Eðlilegast er að barnið fái þessa 12 mánuði, út á það gengur okkar breytingartillaga, og það séu foreldrarnir sjálfir sem skipti þessum mánuðum á milli sín.

Í þessu frumvarpi mætti taka betur tillit til aðstæðna. Við vitum t.d. að sumir foreldrar búa í sitt hvorum landshlutanum, jafnvel í sitt hvoru landinu, og það er ekkert sérstaklega vel hugað að aðstæðum foreldra sem ekki fá pláss fyrir barnið sitt á leikskóla innan þess tímaramma sem frumvarpið boðar.

Mér finnst eins og þetta frumvarp miði aðeins að því að foreldri eða foreldrar eignist aðeins eitt barn, að við séum alltaf að ræða hér um einhverja einskiptisaðgerð og alls ekki annað barn og jafnvel ekki það þriðja. Það getur nefnilega vel verið að það henti foreldrum á einhverjum tímapunkti að skipta með sér orlofinu en svo þegar næsta barn fæðist þá henti það best að annað foreldrið taki allt orlofið og með því þriðja verði skiptingin jafnvel enn önnur, allt eftir þörfum hverju sinni. Þetta finnst mér gleymast í umræðunni.

Það er líka undarlegt að í frumvarpinu er talað um leikskóla sem dagvistun. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í frumvarpið:

„Lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs í tólf mánuði er liður í því að minnka það bil sem er á milli fæðingarorlofsréttar foreldra og þangað til barni býðst dagvistun á leikskóla.“

Þetta finnst mér sérstakt orðalag þar sem leikskólinn er eins og við flest vitum skilgreindur sem fyrsta skólastig og það starf sem þar fer fram á ekkert skylt við dagvistun. Ég hefði skilið þessa setningu í frumvarpi um fæðingar- og foreldraorlof fyrir 20 árum, eins og ítrekað hefur komið hér fram í dag, en ég skil ekki að þetta skuli vera orðað með þessum hætti í þessu frumvarpi.

Það verður líka að taka fram að í meiri hluti umsagna, sem mér sýndist flestar vera komnar frá konum, þ.e. einstaklingarnir voru konur, komu fram ábendingar um mikilvægi þess að foreldrar hefðu meira svigrúm, það var beinlínis kallað eftir auknu svigrúmi til þess að þeir sjálfir gætu ákveðið hvernig skiptingin á að vera. Það voru 228 einstaklingar sem sendu inn umsögn og það er töluverður fjöldi.

Það er þó ánægjulegt, svona til þess að enda á góðum nótum, að horfið hefur verið frá því að stytta tímabilið sem foreldrar hafa til að nýta þennan rétt. Það var talað um að stytta hann niður í 18 mánuði þegar drögin lágu inni á samráðsgátt en er komið í 24 mánuði, sem er beinlínis nauðsynlegt svigrúm. Það er líka gott að komið sé til móts við einstæða eða sjálfstæða foreldra. Það er mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem þau geta til að foreldrar geti nýtt sér fæðingarorlof. Það er líka mjög mikilvægt að stjórnvöld setji foreldra ekki í þá afleitu stöðu að þurfa að velja og hafna.