Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að það verði bakslag. Ég byggi það á því að það eru yfir 200 einstaklingar sem skila inn umsögn á samráðsgátt, einstaklingar sem alla jafna hafa ekki tækifæri, eða nýta sér ekki tækifærið þó að þeir geti, til að senda inn umsögn þegar mál er komið í þinglega meðferð. Það segir mér að fólk sé mjög vakandi yfir því sem verið er að gera. Ég leyfi mér að efast um að við eigum að taka barn, sem dæmi, inn í þá jöfnu, þ.e. þegar fólk eignast barn og þarf að haga sínum aðstæðum eins og best verður á kosið þannig að allt geti virkað sem skyldi, að það sé jafna sem þurfi að taka með í reikninginn, að jafnréttisumræðan eða jafnréttið eigi að vera mest áberandi á þeim tímapunkti. Þó að ég skilji vel hvað hv. þingmaður meinar þá held ég að málið sé mun stærra en svo. Ég er sannfærð um að foreldrar eigi að hafa þann rétt að skipta með sér hvernig þeir vilja haga sínum mánuðum, fyrstu mánuðum barnsins, og sínu lífi.