Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er allt rétt sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við Noreg og ég minnist þess að þegar við opnuðum á orlof til feðra þá var ekki þak á þeirra greiðslum í aðdraganda þannig að þeir unnu mjög mikið til að hækka síðan það sem þeir fengu út úr pottinum með töku fæðingarorlofs. Þegar þakið var sett á þá fækkaði aftur í hópnum. Það sem ég er að fara með þessu er að það eru til önnur tæki, það eru til aðrir hvatar til þess að fá feður til að taka fæðingar- og foreldraorlof. Mér finnst líka mikilvægt að nefna, úr því að við erum farin að ræða umsagnir einstakra aðila, að ég minnist þess að Geðvernd hafi sent umsögn síðast þegar við vorum með málið til umfjöllunar, sem fjallaði einmitt um það að ef við værum að ræða um geðheilbrigði barns og fjölskyldu þess væri mjög mikilvægt að búa til og gefa rými fyrir þennan sveigjanleika. Eins getum við vitnað til umsagnar landlæknis sem taldi réttast að auka sveigjanleikann. Það er að mínu viti það sem við eigum að gera. Ég treysti foreldrum til að skipta með sér þessum mánuðum sem þeir hafa úr að spila og mér finnst ekki mitt að ákveða hvernig fjölskyldur í þessu landi geta best hagað sínum málum, hvort sem það eru tveir foreldrar eða eitt.