151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:48]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég er ekki mikill montrass og hef ekkert ofboðslega gaman af þessu Ísland best í heimi dæmi sem fer stundum í gang, sérstaklega þegar við förum út fyrir landsteinana og segjum frá landinu okkar góða. En ég er samt alveg tilbúinn til að segja að íslenska fæðingarorlofskerfið sé á heimsmælikvarða. Það er engan veginn fullkomið og það er löngu tímabært að við breytum því en það er með allra bestu fæðingarorlofskerfum í heiminum. Raunar er það þannig að Norðurlöndin eru samanlagt með besta kerfið. Það sem er eiginlega verkefnið hér í dag hjá okkur er að plokka það besta sem hefur verið reynt í nágrannalöndunum í sambærilegum kerfum inn í kerfið okkar til að það verði eins nálægt því að vera fullkomið og hægt er.

Þetta hefur Ísland gert í hina áttina. Það sem við höfum fært nágrönnum okkar á Norðurlöndunum til eftirbreytni er útfærslan á orlofi feðra. Það var opnað fyrir fæðingarorlof feðra 1980 með hvötum, eins og það heitir, en ekki skylduboði. Ég rúnna töluna, vona að forseti fyrirgefi mér það, en þátttaka feðra með þeim hvata var 0%. Það tók eiginlega enginn faðir fæðingarorlof árið 1980–2000. Árið 2000 voru samþykkt lögin sem við erum að breyta hér í dag. Þá var feðraorlofið innleitt í þremur skrefum. Fyrst mánuður, árið eftir tveir mánuðir, á þriðja ári fimm mánuðir. Nú rúnna ég tölfræðina aftur: Fyrsta árið tóku feður að meðaltali 30 daga, ekki degi meir. Á öðru ári tóku feður að meðaltali 60 daga, ekki degi meir. Á þriðja ári innleiðingarinnar tóku feður 90 daga og ekki degi meir.

Það er nefnilega kannski dálítið erfitt að horfast í augu við það en staðan er sú að kynjakerfið, sem stýrir því hvernig þetta samfélag lítur á hlutverk karla og kvenna, feðra og mæðra og fólks sem hefur alls konar ólík hlutverk í samfélaginu, það rammar okkur svo stíft inn að það sést meira að segja á tölfræði fæðingarorlofskerfisins. Mæður taka allan sameiginlegan rétt, m.a. vegna þess að samfélagið ætlast til þess að mæður séu duglegri að sinna börnunum en feður. En það er einmitt það sem við viljum breyta. Við viljum gera feður jafn duglega og mæður að sinna börnunum sínum.

Á sama tíma þurfum við einhvern sveigjanleika vegna þess að samfélagið er miklu fjölbreyttara en svo að það passi inn í einhvern svona stífan ramma. Þá höfum við sérstöku lausnirnar fyrir einstæðu foreldrana eða þegar foreldris nýtur ekki við sökum veikinda eða hvað það er. Þannig náum við utan um sem flest. En eftir stendur að grundvallarhagsmunir barna í þessu eru sem mestar og bestar samvistir við foreldra. Grundvallarhagsmunir barna eru jafnrétti í samfélaginu, sem felst líka í aukinni atvinnuþátttöku kvenna og jöfnum launum sem er afsprengi fæðingarorlofskerfisins. Og hagsmunir barna felast líka í jafnrétti á heimilinu. Það er einfaldlega þannig að geta feðra til að standa sína plikt á heimilinu eykst þegar þeir taka fæðingarorlof. Við verðum bara betri í því að sinna heimilisskyldunum til jafns á við manneskjuna sem við búum með. Það er rosulega fúlt að við þurfum eitthvert stíft kerfi til að haga okkur eins og almennilegir menn, en það virðist vera hluti af því að brjótast út úr kynjakerfinu að við þurfum aðeins að pína okkur til þess. Það sem mest þátttaka feðra í uppeldi barna sinna, í gegnum m.a. fæðingarorlofið, skilar líka er að við lærum að vera foreldrar vegna þess að foreldrahlutverkið, eins og öll önnur hlutverk sem við tökum að okkur, er eitthvað sem við þurfum að læra. Við lærum það ekki með því að framselja allt fæðingarorlofið til makans og arka sjálf í vinnuna og kunna ekki neitt á neitt þegar heim kemur. Nei, við lærum það með því að taka á því.

Þess vegna held ég varðandi þá útfærslu sem hæstv. ráðherra kemur með hér varðandi skiptingu mánaðanna — í fullkomnum heimi þyrfti hún ekki að vera svona stíf. Í fullkomnum heimi þyrfti ekki að tiltaka þetta allt saman, en staðreynd málsins er að við búum bara ekki í þessum fullkomna heimi sem við viljum öll búa í. Þessi stífi rammi er nauðsynlegur til að koma okkur á þann veg að búa í fullkomna heiminum þar sem feður sinna uppeldi barna og öðrum heimilisstörfum til jafns við mæður.

Á leiðinni frá samráðsgáttinni og hingað til þingsins gerði hæstv. ráðherra eina breytingu sem mig langar að nefna sérstaklega sem skiptir miklu máli. Hann lengdi aftur það tímabil sem hægt er að taka fæðingarorlofið á úr 18 mánuðum upp í 24 mánuði. Þetta er jákvæð breyting sem eykur svigrúm foreldra til að haga fæðingarorlofinu þannig að henti þeirra aðstæðum. En við verðum samt að horfast í augu við að þetta er jákvæð breyting vegna þess að það er ekki búið að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Jákvæðasta breytingin væri náttúrlega að það væri hægt að hafa þetta 18 mánuði vegna þess að eftir 12–18 mánuði ættu börn tryggða vist á leikskóla. Mér þykir miður að það hafi ekki náðst lengra í land með það. Þetta var nefnt hérna í þingsal fyrir tæpu ári. Hér situr hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem komst svo vel að orði að ég skrifaði það niður hjá mér, með leyfi forseta:

„Það verður einfaldlega að ganga í það mál að setja upp einhverjar áætlanir um að sveitarfélögin og eftir atvikum ríkið þarf að gera eitthvað enn þá meira, hjálpist að við að loka þessu gati.“

Þetta var brýnt fyrir ári og núna, fyrirgefðu, herra forseti, er ráðherrann bara runninn dálítið á rassinn með þetta. Það er ár þangað til þessi lög eiga að koma til framkvæmda og ég sé ekki fyrir mér að það verði búið að brúa gatið hinum megin frá á þeim tíma. Þetta hefði þurft að byrja miklu, miklu fyrr.

Við höfum nokkrum sinnum í tengslum við fæðingarorlof rætt þessa togstreitu á milli fæðingarorlofskerfisins sem réttindaávinnslukerfis á vinnumarkaðnum og sem félagslegs stuðningsnets. Þetta er dálítið erfið togstreita vegna þess að það er einn helsti styrkleiki kerfisins að þetta sé réttindaávinnslukerfi í samvinnu við verkalýðshreyfinguna. Þannig tryggjum við stöðuga og nokkuð góða fjármögnun á kerfinu með samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, með því að nota tryggingagjaldið til að fjármagna þetta. Miðað við margar aðrar stórar breytingar er ekki svo mikið mál að stíga eitthvert 10 milljarða skref í fæðingarorlofskerfinu, miðað við almenn tryggingakerfi. En þetta er líka veikleiki vegna þess að þá verður félagslegi hlutinn út undan. Hér hefur verið rætt í kvöld að það þurfi bara að laga það í næstu umferð. En ég vil beina því eins sterkt og hægt er til velferðarnefndar að skoða hvort megi ekki laga þetta núna. Reyndar hefði alveg mátt laga þetta bara upp í ráðuneyti af því að málefni vinnumarkaðar og málefni félagslegu kerfanna eru bæði í ráðuneytinu. Þetta er fólk sem vinnur á sömu skrifstofu sem hefði getað leyst þetta þar.

Það kom nefnilega fram í fyrirspurn sem ég fékk svar frá ráðherra við fyrir réttu ári að það eru tveir hópar mæðra sem nýta fæðingarorlof ekki alveg upp í topp. Það eru annars vegar þær sem þurfa að reiða sig á fæðingarstyrk sem á að vera, eins og kemur fram í frumvarpinu, 83.000 kr. á mánuði fyrir fólk utan vinnumarkaðar og 190.000 kr. fyrir námsfólk. Hins vegar eru það láglaunakonur, konurnar með lægstu launin. Þær hafa bara ekki efni á því að fá 20% skerðingu í fæðingarorlofi. Þær eru á nógu lágum launum fyrir.

Það sem þarf að gera fyrir þessa hópa, og það þarf að gera það núna, er að hífa þá upp. Það þarf að tryggja fólkinu mannsæmandi framfærslu á fyrstu mánuðum barnsins af því það eru hagsmunir barna að foreldrar séu ekki að lepja dauðann úr skel heldur geti haft í sig og á. Við værum ekki einu sinni að tala um það svakalegar upphæðir. Segjum að við myndum hífa þetta fólk upp í lágmarkslaun sem á næsta ári verða 351.000 kr. Það kom einmitt fram í þessu svari ráðherra við fyrirspurn minni í fyrra að slík breyting myndi kosta 1,5–2 milljarða á ári en hún myndi líka ná til kannski 3.000–3.500 manns. Þetta myndi snerta að einhverju leyti um helminginn af fólki sem tekur fæðingarorlof. Þetta er alveg rosalegt hagsmunamál. Ég vona að velferðarnefnd finni það hjá sér að tryggja að fólkið sem raðast neðst á tekjuskalann fái óskertar greiðslur upp að lágmarkslaunum.

Svo var eitt smáatriði sem ég rak augun í 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um hinar ýmsu ástæður sem geta verið fyrir lengingu, framsali eða tilfærslu á rétti foreldra til fæðingarorlofs. Það eru foreldrar sem eru í fangelsi eða foreldrar sem eru veikir eða hvað það er. Svo er þarna einn hópur sem mér fannst skera sig dálítið úr, því að við erum þarna með mjög marga hópa foreldra sem geta ekki tekið þátt í uppeldi barnanna sinna, eru bara ekki á staðnum. Þá er eðlilegt að geta framselt að fullu rétt þess fólks til hins foreldrisins. En í 9. gr. stendur líka að ef foreldri á hvorki rétt samkvæmt þessum lögum né rétt í einhverju öðru ríki, þá fær hitt foreldrið 12 mánaða rétt. Það hlýtur að vera hægt að útfæra þetta betur. Þó að annað foreldrið sé þarna samkvæmt íslenskum lögum réttindalaust er bara asnalegt að láta það sitja á hliðarlínunni meðan hitt foreldrið fær að fullu framselt fæðingarorlofið. Ég myndi alla vega setja stórt spurningarmerki við að þetta fulla framsal standist markmið laganna um að tryggja barni samvistir við báða foreldra.

Ég legg það kannski bara hjá hv. fulltrúum í velferðarnefnd að skoða tölur sem komu fram í svarinu sem ég hef nefnt hérna nokkrum sinnum. Þar kom í ljós að það eru á hverju ári um 700 feður og 100 mæður sem taka ekkert fæðingarorlof. Það þarf bara að grennslast fyrir um af hverju og hvernig við getum látið kerfið sjá til þess að þau taki fæðingarorlof vegna þess að yfirmarkmið þessara laga hlýtur að vera að allir foreldrar landsins taki eins mikið fæðingarorlof og þeir geta. Í þessu tilviki þá grunar mig t.d. að það séu feður sem eru utan vinnumarkaðar, eins og atvinnulausir eða í námi, sem eru fjölmennastar í hópnum sem ekkert tekur. Þess þá heldur skiptir máli að hífa upp botninn þannig að óskert lágmarkslaun séu lágmark allra foreldra í fæðingarorlofi, því að það eru hagsmunir barna.