151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hér er alltaf rætt um þetta frumvarp eins og til standi að skipta 12 mánuðum jafnt þá ætla ég að setja á mig spámannshattinn og segja að það verði ekki reyndin. Ég slumpaði hér á tölfræði síðustu 20–40 ára. Ég held að reyndin verði að allar mæður taki sjö mánuði og allir feður taki fimm mánuði. Það verður sú jafnasta skipting sem mun koma út úr þessu jafnasta allra jöfnu kerfa sem við höfum fengið inn á þingið. Jú, vissulega bera konur þyngri líkamlegar byrðar og einu líkamlegu byrðarnar af því að koma börnum í heiminn. Einmitt, þær hætta flestar störfum nokkru fyrir barnsburð. Þarf það endilega að koma af fæðingarorlofinu? Nú hef ég fylgst með nokkrum konum ganga í gegnum þetta ferli og ég þekki varla nokkra einustu sem fær ekki bara veikindaleyfi síðasta mánuðinn þegar grindargliðnunin, þreytan og allt saman er farið að gera helstu athafnir daglegs lífs erfiðari en svo að það borgi sig að vera að vinna. Það er bara miklu betra en að éta af fæðingarorlofinu og yfirleitt hærri taxti. Þetta er réttur sem konan á. Ég veit að í Svíþjóð geta konur fengið fæðingarorlof fyrir barnsburð. Ég er ekkert viss um að það sé endilega rétta leiðin. Ég er ekkert endilega viss um að besta leiðin sé að líta á það sem hluta af fæðingarorlofinu þegar um er að ræða að kona fær frí frá vinnu heilsu sinnar vegna. Það heitir bara veikindaleyfi.