151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir veikindaleyfi. Ég velti fyrir mér hvort allar konur hafi jafnan rétt til veikindaleyfis mánuði fyrir barnsburð og fái full laun í mánuð fyrir barnsburð vegna veikindaleyfis, hvort þar sé kökunni virkilega jafnt skipt. Svo eru það bara ekki veikindi að vera ólétt, hv. þingmaður. Það skýtur skökku við að konur þurfi að fá resept upp á að þær séu veikar þegar þær eru einfaldlega á lokametrum meðgöngu. Þessi lög, eins og þau eru núna, gera ráð fyrir því að konur geti tekið sér fæðingarorlof mánuði fyrir settan dag.

Það væri réttara að einfaldlega væri viðurkennt að það sé bara hluti af þessu barneignarferli að taka sér frí. Eftir því sem ég best veit er það þannig á öllum Norðurlöndunum nema hér að konur geta hætt að vinna á 36. viku meðgöngu, einfaldlega vegna þess að þá fer róðurinn virkilega að þyngjast. Hvers vegna það eigi að fara af sjálfstæðum rétti móður til fæðingarorlofs er mér enn þá hulin ráðgáta. Ekki er það tími sem barnið á með móðurinni nema að mjög takmörkuðu leyti. Og ég spyr mig hvort við viljum virkilega hafa það þannig að taka þurfi veikindaleyfi til að geta gengið síðustu metrana með barn frekar en að atvinnulífið, löggjafinn og samfélagið í heild sé bara tilbúið að viðurkenna að síðasta mánuðinn er það bæði móður og barni fyrir bestu að móðirin sé ekki að vinna? Þetta virðast sérfræðingar vera sammála um. Af hverju er löggjafinn ekki sammála um þetta? Hvers vegna á það að bitna á sjálfstæðum rétti móðurinnar að hún hafi fengið það þróunarfræðilega hlutskipti að ganga með barnið?