151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að lengja þessa umræðu ekki mikið en ég hef fylgst með henni og hef á henni mikinn áhuga. Umræðan sem hér hefur staðið núna um skeið hefur verið áhugaverð. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég fagna þessu frumvarpi mjög. Ég lít á þetta sem gleðidag í fjölskyldumálum og jafnréttismálum í landinu. Nú er ég bjartsýnn á að þetta sé loksins að hafast, lenging fæðingarorlofsins í fulla 12 mánuði, og er þá ekki orðin nema sex til sjö ára töf frá því að slík áform voru lögfest sínum tíma árið 2013 í aðdraganda kosninga, en framkvæmdinni síðan frestað eða hún slegin af um langt skeið, og áraði þó bærilega á árunum sem á eftir fóru til að hrinda þessu í framkvæmd þá þegar hagur landsins fór allur batnandi. En nú er þetta sem betur fer aftur á dagskrá í tíð þessarar ríkisstjórnar og búið að lengja fæðingarorlofið um einn mánuð á þessu ári og síðan verður þetta í höfn frá og með næstu áramótum. Það er vel.

Ég ætla að hoppa aðeins aftur í tímann, kannski ein 25 ár, alla vega aðeins aftur fyrir tímamótalöggjöfina árið 2000, af því að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson rifjaði upp hvernig þetta var á sínum tíma. Þó að það væri þannig að feður gætu tekið eitthvert mjög takmarkað fæðingarorlof gerðu þeir það almennt ekki vegna þess að það var ekki sjálfstæður, óframseljanlegur réttur. Hann var ekki beysnari en það að árið 1998, þegar sá sem hér stendur eignaðist sitt síðasta barn, yngsta barn — ég er sjálfsagt búinn að segja þetta hérna áður og einhverjir eru orðnir leiðir á að heyra það — þá átti maður rétt á hálfum mánuði, það var allt og sumt. Það var þá nýtilkomið, alla vega í tilviki alþingismanna, því að svo mikið er víst að ég var fyrsti faðirinn á Alþingi Íslendinga sem tók fæðingarorlof, í hálfan mánuð. Það var dýrmætur og dásamlegur hálfur mánuður en auðvitað allt of stuttur. Og eftir þá reynslu grét ég að ég skyldi ekki hafa átt þess kost áður þegar ég átti mín eldri börn, að geta tekið meiri þátt í fyrstu vikum og mánuðum þeirra.

Ég bið menn líka aðeins að hugsa um það hvílík gríðarleg tímamót lögin frá 2000 urðu og hvað þau hafa haft mikil áhrif, ekki bara á vinnumarkaðnum, því að þetta er miklu stærra jafnréttismál en bara vinnumarkaðslegt, en þar hafa þau að sjálfsögðu skipt miklu. Þróunin sem kom í kjölfarið eftir að sjálfstæður réttur feðra lengdist var ákaflega áhugaverð. Að vísu var kerfið mjög rausnarlegt og ekki einu sinni þak á greiðslunum óháð því hversu há laun menn fengu rétt fyrstu árin. En svo töldu menn sig ekki hafa ráð á því. Feður fóru að taka fæðingarorlof í mjög ríkum mæli. Það má segja að síðustu árin fyrir hrun hafi það hlutfall verið orðið mjög flott, mjög ásættanlegt. Þá voru báðir foreldrar almennt farnir að nýta þennan rétt sinn í mjög ríkum mæli og tiltölulega fáir feður tóku ekki a.m.k. stærstan hluta af sínum sjálfstæða rétti til fæðingarorlofs. Svo kom aðeins bakslag í það aftur, eins og kunnugt er, en hefur heldur skánað síðan.

Við vorum hér í dag að minnast Páls Péturssonar, fyrrverandi alþingismanns og félagsmálaráðherra. Af því tilefni var Ríkissjónvarpið með frétt í kvöld og þar var birt viðtal við ráðherrann frá þeim miklu tímamótum þegar þessi löggjöf fór hér í gegn. Þáverandi hæstv. ráðherra, Páll Pétursson, sagði þá að þetta væri mikið réttlætismál. Þetta væri stórkostlegt fjölskyldumál, en síðast en ekki síst stórkostlegt jafnréttismál sem myndi auðvelda fjölskyldunum í landinu að samþætta fjölskyldulíf og atvinnulíf og stuðla að auknu jafnrétti. Það reyndist svo sannarlega þannig. Það hafði gríðarleg áhrif á menninguna í landinu að þessu leyti. Það hafði uppeldisleg áhrif og það hafði alveg sérstaklega mikið gildi til þess að fá feður til að gangast við ábyrgð sinni í þessum efnum, rétt eins og mæðurnar. Ísland varð þekkt fyrir þessa róttæku, framsæknu löggjöf og hún varð fyrirmynd annars staðar, því að í kjölfarið fóru fleiri og fleiri lönd að taka upp, a.m.k. í einhverjum mæli, sjálfstæðan, óframseljanlegan rétt beggja foreldra. Eru þó mörg þeirra stutt á veg komin enn þá og dauðöfunda okkur Íslendinga af því að eiga þó þessa löggjöf sem við getum verið stolt af að öllu leyti nema því að það tók allt of langan tíma að lengja fæðingarorlofið a.m.k. í 12 mánuði. En það er þó vonandi núna í höfn. Og alltaf neyddist maður á árunum þarna á eftir til að setja þann fyrirvara þegar verið var að hrósa okkur fyrir þetta, að það væri að vísu einn galli á, að við hefðum ekki enn byggt kerfið upp til fulls. En grunneðli þess og uppbygging er góð.

Síðast á útmánuðum vorum við á Nýja-Sjálandi, þrír þingmenn frá Alþingi Íslendinga. Þar var verið að ræða þetta og menn að horfa til Íslands. Róttækir femínistar, baráttukonur fyrir jafnrétti á nýsjálenska þinginu, létu sig dreyma um að þær gætu þokað kerfinu lengra í okkar átt. Þetta hafði sem sagt ekki bara í för með sér verulega betri og sterkari stöðu kvenna á vinnumarkaði, og það hefur ekkert lítið gildi, heldur hafði þetta gríðarleg áhrif á það að feður fóru að breyta hugsunarhætti sínum um þetta efni. Þar voru ýmsir ágætir menn sem voru í fararbroddi fyrir því að í raun og veru endurmennta unga karlmenn í landinu og koma þeim í skilning um að þeir ættu að bera þarna sína ábyrgð. Og þetta snýst um það. Ég lærði mikið á þessum hálfa mánuði mínum, hvað það er nú handtak að reyna að sjá um lítið kríli, og skilgreindi ég þó sjálfan mig sem femínista strax á þeim árum. En það rann upp fyrir mér hvað ég átti mikið ólært, og á reyndar enn, því að það er eilífðarlærdómur að reyna að bæta sig sem mann að þessu leyti.

En heilmikið hefur gerst í kjölfar þessarar tímamótalagasetningar árið 2000, sem er án efa eitt það framsæknasta sem Ísland hefur gert í þessum efnum, í jafnréttis- og fjölskyldumálum. Þess vegna skulum við gæta okkar og stíga varlega til jarðar við að fara að hörfa um of frá grundvallarhugsun þess kerfis. Skil ég þó að sjálfsögðu vel hvað margir eru að tala um þegar þeir velta því fyrir sér hvort ekki sé orðið óhætt að hafa meiri yfirfærsluréttindi í þessu eða hvort ekki sé í lagi að bakka dálítið með þetta og að menn geti framselt meira af réttinum. Ég bið menn að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég get samþykkt þetta frumvarp á morgun eins og það er. Ég er ágætlega sáttur við að þetta sé svona; jafn, sjálfstæður réttur, sex mánuðir hjá hvoru foreldri, en að semja megi um yfirfærslu á einum mánuði. Ég tel, ef menn vilja glíma meira við það að mæta sérstökum erfiðum, félagslegum aðstæðum eða öðru slíku, að þá sé vænlegra að leiðin til þess liggi í gegnum 9. gr. og að skilgreina betur og útfæra þær heimildir sem eru til staðar til að takast á við slík jaðartilvik þar sem of mikil vandkvæði eru á því að báðir foreldrar geti lagt sitt af mörkum. Það er alveg hægt að glíma betur við. En ég segi líka þar: Það má ekki ganga of langt í þeim efnum. Það má ekki fara að leka of mikið, það má ekki bjóða upp á hættu á misnotkun á því, því að þá verður það þannig að karlarnir fara í minna mæli að taka fæðingarorlof.

Ég held við ættum ekki að setja okkur á of háan hest gagnvart því að staða jafnréttismála á Íslandi sé orðin svo góð að við höfum efni á því að slaka á í þeim efnum. Einhver ónotaleg tilfinning segir mér að það gæti hratt komið bakslag ef þetta er ekki tryggt í gegnum þessar reglur eins og þær eru að þessu leyti. Það er engu fullu jafnrétti kynjanna náð á Íslandi þrátt fyrir að við séum heimsmeistarar. Það vantar heilmikið upp á. Hér er kynbundinn launamunur og fljótt getur farið að þyngja fyrir fæti hjá ungum konum á barneignaraldri á vinnumarkaði ef sú þróun færi aftur á fulla ferð að það væru fyrst og fremst þær sem bæru ábyrgð á umönnun barna á fyrsta æviskeiðinu. Ég er ekki að segja að við færum alla leið aftur í það að atvinnurekendur væru skíthræddir við að ráða konur á barneignaraldri og að þær stæðu stanslaust frammi fyrir því að eiga minni framgangsmöguleika á vinnustað vegna þess að hættan á því að þær yrðu óléttar og þyrftu að fara heim til að sinna börnum væri til staðar. En þannig var þetta, þá sögu verður bara að segja eins og hún er. Við höfum farið ótrúlega langt í þessum efnum á 20–25 árum, og það er gleðilegt, en það þýðir ekki að hættan á bakslagi sé ekki til staðar. Feðraveldið stendur djúpum rótum, kynjakerfin eru sterk og við sjáum sótt að rétti kvenna að ýmsu leyti, bara gegnum sviptivinda í stjórnmálunum. Þá er allt í einu ávinningur í þeim efnum, sem maður hefði haldið að væri kominn til að vera, í hættu, eins og það að konur ráði sjálfar yfir sínum eigin líkama. Þannig að við skulum ekki gefa okkur að ekki geti komið bakslag og stígum þar af leiðandi varlega til jarðar í þessu, vegna þess að við höfum dóm reynslunnar hér. Við höfum sannanir fyrir því hvað þessi aðgerð var mikilvæg, hversu miklu hún hefur breytt í sambandi við þessi mál. Þá er ég ekki fyrst og fremst að hugsa um vinnumarkaðsþáttinn, þótt hann sé mikilvægur, ég held að það sé enginn vafi á því að staða kvenna er nánast á allan hátt mun vænlegri á vinnumarkaðnum í dag, mikil ósköp, án þess að vera þó að öllu leyti orðin nógu góð, samanber það sem ég nefndi með kynbundinn launamun og fleira, lægra hlutfall í stjórnunarstöðum og þá hættu að karlakerfið passi upp á sitt og að mönnum gangi betur að fá ákveðinn framgang og ákveðnar uppbætur á launin sín og svona. Þannig hefur það nú viljað vera.

En ég er líka að hugsa um andrúmsloftið í samfélaginu. Ég er að hugsa um kúltúrinn. Ég er að hugsa um viðhorfin inni í fjölskyldunum. Ég set þó við þetta þann fyrirvara að auðvitað vil ég trúa því að yngri kynslóðir séu núna að alast upp og komnar inn á þetta aldursskeið sem líti miklu meira á það sem sjálfsagðan hlut að foreldrarnir deili þessu með sér. Það finnst mér ég skynja á ungu fólki í kringum mig, á mínum börnum og öðrum sem eru að eiga börn þessi árin, að það er orðið algerlega gjörbreytt andrúmsloft í þeim efnum. Og kannski myndi það draga langt, en hin öflin, hinir kraftarnir, og þeir fjárhagslegu, geta verið sterkir hér og þá þarf að hafa í huga.

En hvernig sem þetta fer veit ég að hv. nefnd mun að sjálfsögðu í ljósi umræðunnar hér líka skoða þetta vel, en ég er ágætlega sáttur við þá lendingu sem er í þessu frumvarpi og gæti, eins og ég segi, samþykkt þetta á morgun, þó að það hljómi kannski ekki vel að forseti Alþingis sé beinlínis að segja að hann sé tilbúinn til að samþykkja mál á morgun. [Hlátur í þingsal.] Það á að sjálfsögðu að fara í sína þinglegu meðferð og vera rannsakað vel og fara út til umsagnar og allt það. En afstaða mín í megindráttum er nokkuð mótuð til þess að ég fagna þessu máli.

Að allra síðustu. Af því að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson var svo vinsamlegur að vitna í einhverja ræðu sem ég hef greinilega haldið í fyrra af svipuðu tilefni varðandi gatið á milli fæðingarorlofs og leikskólaaldurs, eða umönnunargatið, sem við köllum stundum svo, þá hef ég engu breytt um það sjónarmið. Mitt fyrirmyndarframtíðarland í þeim efnum er auðvitað að þarna sé ekkert gat og að leikskólinn sé gjaldfrjáls. Ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum og það er alveg rétt að til þess gæti þurft eitthvert frekara samstarf og átak ríkis og sveitarfélaga. En gleymum því ekki að ríkið er að stíga hér gríðarlega mikilvægt skref á tveimur árum til að minnka þetta gat um þrjá mánuði neðan frá. Það munar verulega um það. Ég hef líka séð að mörg sveitarfélög eru að teygja sig talsvert í áttina. Og ég tek eftir því að það er að verða algengara að sveitarfélög séu stolt af því og kynni það sérstaklega að þau séu komin með aldurinn mun neðar en áður var, inn í leikskóla. Sums staðar er þetta gat orðið mjög lítið og jafnvel ekkert á einhverjum fáeinum stöðum, eða verður alla vega ekkert eftir að fæðingarorlofið er komið í fulla 12 mánuði. Það er auðvitað mjög gott og vonandi verður metnaður og jafnvel bara samkeppni milli sveitarfélaganna í landinu um að búa fjölskyldum til gott umhverfi að þessu leyti og að menn setji það í forgang að loka þessu gati. Þá getur þetta allt orðið alveg skínandi gott mjög fljótlega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)