151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og hæstv. forseta, Steingrími J. Sigfússyni, fyrir innblásna og áhugaverða ræðu um þetta mikilvæga mál sem við erum að ræða. Mig langaði aðeins að ræða við hv. þingmann um kynslóðabilið sem hann minntist á í ræðu sinni og að mögulega hefðu viðhorf aðeins breyst frá því að hann var fyrstur þingmanna til að taka fæðingarorlof, og velta því upp hvort það kynni að hafa einhver áhrif á þessar mjög ströngu reglur sem gilda um skiptinguna. Nú hefur t.d. verið nefnt að sjálfstæður réttur foreldra gæti verið fjórir mánuðir á hvort foreldri, framseljanlegur réttur fjórir mánuðir. Telur hv. þingmaður ekki að möguleg viðhorfsbreyting hjá kynbræðrum hans hafi þau áhrif að þeir verði tilbúnir til að taka stærri skerf ef það hentar fjölskyldunni hverju sinni? Mér fannst hv. þingmaður tala svolítið eins og karlar væru að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að komast hjá því að njóta samvista við börnin sín á þessum mikilvæga uppvaxtartíma og ef þeir kæmust hjá því þá myndu þeir bara sleppa því.

Ég velti fyrir mér hvort orsakirnar geti ekki verið aðrar, orsakir sem hv. þingmaður kom líka að í ræðu sinni og snerust um launamun kynjanna. Þá eru orsakirnar fyrir því að karlarnir taka síður fæðingarorlof ekki þær að kynjakerfið sé svo ósanngjarnt, að þeir fái hærri laun, heldur að það kostar bara fjölskylduna miklu meira fjárhagslega að þeir fari í leyfi en að móðirin fari í leyfi. Er það ekki þar sem við þurfum að vinna að auknu jafnrétti, virðulegi forseti, frekar en að loka algerlega á svigrúmið? Núverandi kerfi gerir ráð fyrir þriðjungi fyrir karl, þriðjung fyrir konu eða föður og móður og þriðjungi valfrjálst. Hvers vegna höldum við því ekki áfram og vinnum að jafnrétti og frelsi annars staðar?