151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[22:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig svara þessu með því að vera með þetta í ræðu minni, að ég er ágætlega ánægður með skiptinguna sem frumvarpið felur í sér. Ég er sammála hv. þm. Andrési Inga Jónssyni um að það er langlíklegast, því miður, að útkoman úr þessu yrði að mestu leyti sjö, fimm. Mér finnst það ekki mega mikið minna vera að feðurnir, sem í flestum tilvikum yrðu með minni skammtinn, leggi sitt af mörkum í a.m.k. fimm mánuði. Ég svaraði því líka til, og ég er enn þeirrar skoðunar, að það ætti a.m.k. í fyrstu umferð að skoða betur heimildarákvæði 9. gr. og mögulega aðeins meiri sveigjanleika þar áður en menn færu að veita afslátt af sjálfstæðum óframseljanlegum rétti beggja foreldra, alla vega einhvern teljandi afslátt. Ég ætla ekki í eitthvert prútt um hvort þetta megi vera fjórir, fjórir, fjórir eða eitthvað slíkt. Ég er ekki þar. Ég tel að standa þurfi að vörð um mjög sterkan, sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt beggja foreldra, les: feðra, til að þetta nái markmiði sínu.

Ég er að sjálfsögðu ekki að gefa mér að ungir feður almennt séu ekki áhugasamur um þetta og ég nefndi það sérstaklega, ég held að það sé orðin heilmikil viðhorfsbreyting og að flestir alist núna upp við það sem miklu sjálfsagðari hlut að leggja sitt af mörkum, deila ábyrgðinni af heimilishaldinu, þar á meðal umönnun barna. Það yrði örugglega áfram þannig hjá verulegum hluta. Það sem ég óttast eru hætturnar sem geta læðst aftan að okkur ef við slökum of mikið á, ef við verðum of andvaralaus. Það geta verið býsna sterkir kraftar sem toga á móti. Ef það er verulegur launamunur, já, að sjálfsögðu, og það hefur jákvæð áhrif á afkomu foreldranna að tekjulægra foreldrið, oftast móðirin, taki þá bara allt fæðingarorlofið, það verði þáttur, og ef faðirinn er á mjög mikilli uppleið í metnaðarfullu starfi og telur að það geti heft starfsframa sinn að taka of langt fæðingarorlof o.s.frv. Það geta verið þarna kraftar sem eru býsna sterkir, sem ég myndi ekki vilja að leystust úr læðingi og kölluðu fram bakslag í jafnréttisbaráttunni á Íslandi.