151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Eftir þrjá daga eru akkúrat níu mánuðir liðnir frá því að fyrsta Covid-tilfellið greindist á Íslandi, níu mánuðir. Við höfum gengið í gegnum risabylgju, þriðju bylgju faraldursins. Alveg frá upphafi, mánuði áður en fyrsta tilvikið greindist hér á landi, stóð ég í þessum ræðustól til þess að spyrja stjórnvöld út í hvernig þau ætluðu að bregðast við hugsanlegum heimsfaraldri kórónuveiru sem virtist vera í uppsiglingu. Í rauninni hefur maður lítið fengið að heyra annað, a.m.k. á þessum fyrstu mánuðum, en háð og spott. Maður hefur jafnvel verið tekinn fyrir í Kastljósi allra landsmanna og sallaður niður eins og hálfgerður bjáni. En ég ætla að segja að ef ég hefði fengið að ráða, eins og einn ágætur mannvinur og góðvinur okkar allra, Kári Stefánsson, hefði sagt, værum við ekki að glíma við grímuskyldu, fjarlægðarmörk, lokunarstyrki og hundruð milljarða skuldasöfnun ríkissjóðs. Kerfið okkar og innviðir myndu ganga snurðulaust. Hér værum við ekki að einangra gamalt fólk og áhættuhópa. Hér værum við ekki að velta fyrir okkur hvort við þyrftum að loka skólum. Hér hefðum við einfaldlega viðurkennt sérstöðu okkar, 370.000 manna eyríki norður í ballarhafi. Við hefðum getað lokað landamærunum og komið algjörlega í veg fyrir að þessi veira riði hér röftum, sem raun ber vitni, í samfélaginu. Við hefðum getað valið sjálf þá umferð um landamærin sem við hefðum tekið og talið nauðsynlega.

En hver er útkoman? Útkoman er sú að við erum núna að mælast með fæstu smitin í Evrópu, guði sé lof. Það er mjög stutt síðan við vorum eldrauð af því að við mældumst hlutfallslega með flest tilvik í Evrópu. En nú er staðan önnur, virðulegi forseti. Ég spyr: Erum við að bíða eftir því núna að þetta lækki pínulítið þannig að við getum farið að hleypa þessu inn aftur (Forseti hringir.) eða ætlum við að tryggja það hér og nú að við getum haldið saman heilög jól?