151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[15:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, ég styð þetta mál. Þetta er mikilvægt skref, að mínu mati, í þá veru að nútímavæða landbúnaðinn. En við meðferð málsins í atvinnuveganefnd kom líka í ljós að stigin eru allt of lítil skref í þá veru að horfast í augu við nútímann. Neysluvenjur okkar Íslendinga eru búnar að stórbreytast, ekki síst núna á síðustu vikum, misserum og mánuðum. Hér er að vissu leyti verið að taka tillit til þess en ekki stigin nægilega stór skref. Mér finnst endurskoðun á búvörusamningnum á þessum parti árið 2023 lýsa ákveðnu metnaðarleysi. Við eigum að geta brugðist hratt við, við erum með þannig stjórnsýslu. Við eigum að geta verið skilvirkari í þágu neytenda en ekki síður í þágu bænda og framleiðanda, garðyrkju, garðyrkjuvara og grænmetis.