151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

opinber fjármál.

6. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér fer fram, sú staðreynd að þetta frumvarp liggur fyrir þinginu, sýnir hversu ótrúlega miklar framfarir hafa orðið í þinginu um þessi efni. Hér áður fyrr hefði þessi umræða ekki þurft að eiga sér stað, þá hefðu ekki verið nein viðmið til að ræða. Við höfum sett okkur ströng viðmið og þegar við getum ekki uppfyllt þau þurfum við að ræða þá stöðu. Þetta er mjög heilbrigt og það er gott fyrir okkur að fara í gegnum það. Nú kemur t.d. í ljós að sumir ætla að keyra áfram með þá stefnu að tala við landsmenn eins og það sé ekkert mál að safna nokkur hundruð milljörðum til viðbótar ofan á þá 600 sem bætast við á þessu og næsta ári, að það sé góð efnahagsstefna til lengri tíma. Það verður þess vegna fullt tilefni þegar svona mál koma hér inn, og verða reyndar ærin á næstu mánuðum og misserum, til þess að ræða það hvort það skiptir máli að eiga fyrir útgjöldum.