sóttvarnalög.
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997. Þann 14. september sl. skipaði ég starfshóp sem falið var að skrifa drög að frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum í þeim tilgangi að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu af heimsfaraldri SARS-CoV-2-veirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Starfshópinn skipuðu fulltrúar helstu aðila sem hlutverki hafa að gegna þegar kemur að opinberum sóttvarnaráðstöfunum. Í þessum hópi sátu aðilar frá heilbrigðisráðuneytinu, embætti landlæknis, dómsmálaráðuneytinu, sóttvarnalækni, Landspítala, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embætti ríkislögreglustjóra. Þann 26. ágúst sl. óskaði forsætisráðherra, í samráði við þá sem hér stendur, eftir því að dr. Páll Hreinsson tæki saman álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Óskað var eftir því að dr. Páll Hreinsson gerði frumtillögur að breytingum á lögum eða reglum eftir því sem tilefni var til. Þann 20. september skilaði hann álitsgerð sinni og var hún lögð til grundvallar við vinnu starfshópsins ásamt þeirri reynslu sem almennt hefur áunnist hér á landi vegna heimsfaraldurs SARS-CoV-2-veirunnar. Frumvarpið sem ég mæli fyrir hér í dag er samið af fyrrnefndum starfshópi.
Virðulegi forseti. Markmið frumvarpsins er að skýra betur þau úrræði sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra geta gripið til, vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi innan lands og hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Frumvarpinu er ætlað að tryggja betur þau réttindi sem varin eru af stjórnarskrá með því að kveða enn skýrar en nú er gert, á um það í lögum til hvaða ráðstafana megi grípa til að skerða þessi réttindi, í hvaða tilvikum og með tilliti til meðalhófssjónarmiða. Þannig er markmiðið að tryggja enn betur að slíkar skerðingar styðjist við viðhlítandi lagaheimild og séu ekki framkvæmdar nema í þágu almannahagsmuna eða til verndar heilsu eða réttindum annarra. Mikilvægt er að fram komi að heimildir sóttvarnalaga til skerðingar á réttindum, samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans, hafa þann tilgang að tryggja líf og heilsu fólks sem eru veigamestu verndarhagsmunir samfélagsins sem njóta verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans. Jafnframt hefur verið talið að á stjórnvöldum hvíli frumkvæðisskylda að stjórnlögum til að bregðast við til verndar lífi og heilsu fólks ef ljóst er að bein og fyrirsjáanleg ógn steðji að því.
Í áðurnefndri álitsgerð. dr. Páls Hreinssonar segir m.a. að opinberar sóttvarnaráðstafanir geti takmarkað mannréttindi sem vernduð eru af mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar er aðallega vísað til 66. og 67., 71., 73. og 75. gr. stjórnarskrárinnar sem varða einkum réttinn til að vera ekki sviptur frelsi nema samkvæmt lögum um friðhelgi og frelsi til atvinnu. Þá segir jafnframt í álitsgerðinni að í sumum tilvikum sé nægilegt að slíkar takmarkanir styðjist við sett lög svo þær teljist heimilar. Í álitsgerðinni er einnig tekið fram að í öðrum tilvikum verði þær að vera í þágu almannahagsmuna, til verndar heilsu eða vegna réttinda annarra svo að þær séu heimilar. Að lokum segir í álitsgerðinni að þeir almannahagsmunir að verjast farsóttum til verndar lífi og heilsu manna teljist falla undir þær undanþágur sem kveðið er á um í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, svo sem 1. mgr. 67. gr., um frelsissviptingu, takmarkanir á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sem koma fram í 71. gr., og takmarkanir á atvinnufrelsi, sem koma fram í 75. gr. stjórnarskrárinnar. Sama megi segja um ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er markmið frumvarpsins að skýra betur þær heimildir sem stjórnvöld hafa til opinberra sóttvarnaráðstafana í samræmi við kröfur lögmætisreglunnar og lagaáskilnaðarreglna stjórnarskrárinnar.
Virðulegi forseti. Gildandi sóttvarnalög eru frá árinu 1997. Ég held að við getum sagt að þau hafi almennt reynst vel í þeim heimsfaraldri sem nú ríkir. Aftur á móti er talið nauðsynlegt á þessum tímapunkti að skerpa á tilteknum atriðum laganna. Það þýðir þó ekki að þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til hafi ekki byggst á nægilega styrkum lagagrundvelli. Í fyrrgreindri álitsgerð Páls Hreinssonar rekur hann mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og fjallar síðan um valdheimildir ráðherra sem fram koma í gildandi sóttvarnalögum.
Síðan segir í álitsgerðinni:
„Samkvæmt framansögðu virðist heilbrigðisráðherra hafa nægar lagaheimildir til þess að setja íþyngjandi sóttvarnaúrræði í reglugerð svo sem gert var með reglugerð nr. 800/2020. Við útfærslu sóttvarnaráðstafana verður á hinn bóginn að taka tillit til þeirra hagsmuna sem þær bitna á, almennra efnisreglna stjórnsýsluréttarins og þá ekki síst meðalhófsreglunnar.“
Þá segir í álitsgerðinni að eftir að á þanþol gildandi sóttvarnalaga hafi reynt í Covid-19 faraldrinum sé eðlilegt að uppsöfnuð reynsla sé vegin og metin og gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum og rétt sé að bæta strax úr helstu ágöllum sem á lögunum eru, m.a. til að tryggja að sóttvarnayfirvöld hafi allar nauðsynlegar valdheimildir.
Með frumvarpi þessu er brugðist við þessum athugasemdum, einkum með breytingum á IV. kafla laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Með frumvarpinu er lagt til að sérstakt ákvæði um orðskýringar komi inn í lögin. Talið er nauðsynlegt að leggja þetta til þar sem slík ákvæði er ekki að finna í gildandi löggjöf. Þannig eru helstu hugtök laganna ekki skýrgreind sem slík í gildandi lögum, svo sem opinberar sóttvarnaráðstafanir eins og samkomubann. Þá er lagt til að í stað þess að í lögunum sé fjallað um yfirlækna heilsugæslu verði hugtakið umdæmislæknar sóttvarna notað. Einnig að skýrð verði í lögum svæðisskipting sóttvarna. Lögð er til breyting á hlutverki sóttvarnaráðs þannig að skýrt verði að ráðið sé ráðgefandi við mótun stefnu í sóttvörnum og hlutverk þess skarist ekki við hlutverk sóttvarnalæknis. Lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldur einstaklings sem læknir hefur grun um að haldinn sé smitsjúkdómi. Þannig er lagt til að ef lækni grunar að einstaklingur gæti verið haldinn smitsjúkdómi, þ.e. ef smitrakning vekur upp slíkan grun, sé viðkomandi skylt að fylgja fyrirmælum um sóttvarnaráðstafanir, þar með talið reglugerðum settum á grundvelli laganna í þeim tilgangi að fyrirbyggja að hann smiti aðra einstaklinga. Þá eru lagðar til breytingar á 12. gr. laganna sem fjallar um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innan lands. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um að sóttkví, stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann séu hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum. Þá eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að samræma með skýrari hætti framkvæmd sóttvarna og lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Í þessu samhengi er rétt að taka fram að einungis er talið að útgöngubann falli ekki nú þegar undir þær sóttvarnaráðstafanir sem kveðið er á um í gildandi lögum. Eins og fram kemur í álitsgerð dr. Páls Hreinssonar er sóttkví vægara úrræði afkvíunar og hefur verið fellt undir það hugtak. Verði frumvarpið að lögum verða bæði þessi hugtök notuð, sóttkví gagnvart einstaklingum, en afkvíun gagnvart svæðum eða stórum hópi fólks. Þá hefur stöðvun atvinnurekstrar fallið undir samkomubann samkvæmt gildandi lögum.
Lagt er til í 11. gr. frumvarpsins að þau ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar sem fjalla um sóttvarnaráðstafanir sem beita má gagnvart ferðamönnum við komu og brottför milli landa verði sérstaklega tekin upp í lögin. Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin hefur nú þegar verið send Stjórnartíðindum til birtingar og má búast við að hún verði formlega birt í C-deild þeirra á næstu dögum eða vikum. Lagðar eru til breytingar á 14. gr. laganna sem kveður á um aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum. Tilgangur breytinganna er að skýrt verði í ákvæðinu að það taki bæði til smitaðra einstaklinga og þeirra sem grunur leikur á um að hafi smitast. Það hefur verið talið leiða af samræmi í skýringu laganna en betur fer á því að það komi ótvírætt fram í lagaákvæðinu sjálfu. Jafnframt er málsmeðferð við ákvörðun um einangrun og sóttkví skýrð frekar. Þá eru lagðar til breytingar á 15. gr. laganna sem fjallar um meðferð máls þess sem gegn vilja sínum hefur verið gert að sæta einangrun eða sóttkví fyrir dómi. Þá er lagt til að tvö ný ákvæði bætist við lögin. Ákvæðin fjalla um rannsókn, úrskurð dómara og kæru úrskurðar um einangrun eða sóttkví. Að lokum er lögð til breyting á þeirri gjaldtökuheimild laganna sem varðar ráðstafanir gagnvart ferðamönnum. Þar er lagt til að í samræmi við ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar verði almennt ekki tekið gjald fyrir ráðstafanir gagnvart ferðamönnum nema þær séu þeim til hagsbóta. Þá verður í undantekningartilvikum hægt að taka gjald fyrir slíkar ráðstafanir þótt þær teljist ekki til hagsbóta fyrir ferðamenn.
Virðulegi forseti. Við gerð frumvarpsins voru áform um lagasetningu og frummat á áhrifum lagasetningar birt í samráðsgátt stjórnvalda þann 7. október sl. Veittur var frestur til að skila inn umsögn til 21. október. Engin umsögn barst, hvorki um áform til lagasetningar né um frummat á áhrifum. Tekin var ákvörðun um að birta ekki drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda eins og hefðbundið er, en ástæðan fyrir þessu er einkum sú að talið var mikilvægt að flýta framlagningu frumvarpsins eins og hægt væri svo það yrði tekið til umræðu og umfjöllunar á Alþingi sem allra fyrst. Mat á áhrifum frumvarpsins á ríkissjóð hefur farið fram og ekki er gert ráð fyrir að lögfesting þess hafi áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs.
Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.