151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessum mikilvægu breytingum á sóttvarnalögum. Ég er með stuttar spurningar enda hef ég eina mínútu til umráða. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í það að umrætt frumvarp var ekki sett í samráðsgátt og fór því ekki í neitt samráðsferli. Ég hnaut um það að í hópnum sem skipaður var til að vinna þetta mál var enginn úr sóttvarnaráði. En í núgildandi sóttvarnalögum segir í 1. mgr. 6. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra skal skipa sjö manna ráð, sóttvarnaráð, til fjögurra ára í senn. Þar skulu eiga sæti sérfræðingar á sviði smitsjúkdómalækninga“, og ýmislegt sem þarna er tilgreint.

Svo segir í 3. mgr.:

„Sóttvarnaráð mótar stefnu í sóttvörnum og skal vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma.“

En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur þetta frumvarp og það sem þar er (Forseti hringir.) ekkert verið borið undir sóttvarnaráð. Ég velti fyrir mér: Hvers vegna (Forseti hringir.) er sóttvarnaráð sniðgengið í þessari vinnu?