151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Eins og fram kom í máli mínu hér áðan og í framsögu minni var það mat mitt að rétt væri að koma málinu sem allra fyrst til Alþingis til umfjöllunar. Það er réttur staður fyrir málið. Kallað hafði verið eftir því að aðkoma Alþingis væri skýrari og meira afgerandi að sóttvarnaráðstöfunum almennt. Það er hinn rétti og eini vettvangur til að sinna úrvinnslu frumvarpa og löggjöf samkvæmt stjórnarskrá. Það var því mitt mat. Ég hvet hv. þingmann, sem er formaður velferðarnefndar, til að sinna vel samráðsferlinu við þá umsagnaraðila sem munu væntanlega koma umsögnum sínum á framfæri við velferðarnefnd í þinglegu ferli málsins og þar með talið sóttvarnaráð.