151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ekki haft neitt samráð við sóttvarnaráð, sem þó skal vera til ráðgjafar lögum samkvæmt? Og hvers vegna hefur sóttvarnaráð í rauninni verið algerlega hliðsett í þeim aðgerðum sem verið hafa núna? Lítið samráð hefur verið haft við sóttvarnaráð, það hefur fengið einhverjar kynningar. Ég velti fyrir mér hvort svona breytingar á lögum eigi ekki lögum samkvæmt að bera undir ráðið.

Annað sem ég vil spyrja út í efnislega varðandi frumvarpið er í fyrsta lagi hvort það komi til álita varðandi ákvæði sem verið er að bæta við, þ.e. um samkomubann, stöðvun atvinnurekstrar og útgöngubann, að það megi bera undir dómstóla eins og er varðandi það þegar einhver einstaklingur er skyldaður í sóttkví, að hægt sé að fara með þær ákvarðanir fyrir dómstóla og láta á það reyna hvort meðalhófs sé gætt. Kemur það til álita að mati hæstv. ráðherra?

Svo vil ég líka spyrja, af því að þetta varðar svo mikið persónuvernd: Hvers vegna var enginn frá Persónuvernd í þeirri nefnd sem kom að samningu þessa frumvarps?