151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara vísa til míns fyrra svars um það hversu hraðar hendur þurfti að hafa við gerð þessa frumvarps. Við þurftum og vildum byggja það á góðri úttekt Páls Hreinssonar, sem og reynslu sem við höfum þegar fengið af Covid-19. Ég vænti þess að málið muni fá þinglega meðferð og að það muni fara í umsagnarferli og samráð við alla sem hafa aðkomu að þessu máli. En vegna þess að hv. þingmaður spyr sérstaklega um sóttvarnaráð hefur það stefnumarkandi hlutverk, eins og fram kemur í máli hv. þingmanns, og það hefur verið uppfyllt með fundum með sóttvarnalækni í gegnum þetta ferli.