151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sérstaklega út í tillögu um heimild til handa ráðherra til að setja á útgöngubann. Í fyrsta lagi vil ég spyrja ráðherra: Hvaða knýjandi þörf er fyrir því að setja svo íþyngjandi ákvæði miðað við hversu vel hefur gengið að fá almenning til liðs við okkur við að halda faraldrinum niðri með þeim úrræðum sem nú þegar eru í boði? Væri ekki réttara að bíða með jafn íþyngjandi ákvæði meðan ekki er knýjandi þörf fyrir það? Alþingi er, að ég tel, alltaf boðið og búið til að koma saman og veita ráðherra slíka heimild ef þörf krefur. En hvað er það hingað til sem sýnt hefur fram á að nauðsynlegt sé að hafa þessa heimild í lögunum? Er almenningi ekki treystandi til að fara varlega? Hefur þetta ekki gengið vel hingað til? Þurfum við að setja svona íþyngjandi ákvæði í lögin okkar?