151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta verður auðvitað svolítið kapphlaup núna við þessa einu mínútu. Þar sem er nýtt í frumvarpinu, eins og fram kemur í máli hv. þingmanns, er útgöngubann. Það skal tekið fram að þetta er ekki sérstakt áhugamál ráðherrans. Hér er um að ræða neyðarráðstöfun, eins og á reyndar almennt við um opinberar sóttvarnaráðstafanir. En þessi gengur lengra en þær sem þegar eru til staðar og þess vegna þarf auðvitað að gjalda varhug við beitingu slíkrar heimildar og aldrei að grípa til hennar nema í neyðartilvikum. Slíku úrræði hefur verið beitt erlendis, til að mynda í Vestur-Evrópu. Aftur á móti er nauðsynlegt í neyðartilvikum að slík heimild sé til staðar. Það er mat starfshópsins að rétt sé að búa um slíkt með skýrum hætti í lögum og að Alþingi setji þann ramma, af því að það sé réttur vettvangur til að setja þann ramma. Ég legg áherslu á að þingið skoði þennan þátt afar vel vegna þess að þetta er mjög viðkvæm heimild.

Af því að hér var áðan spurt um samráð við Persónuvernd þá las hún yfir frumvarpið í heild.