sóttvarnalög.
Virðulegur forseti. Það er einmitt þessi umræða sem þarf að eiga sér stað í hv. velferðarnefnd og Alþingi er náttúrlega réttur vettvangur til að ræða mál af þessu tagi. Ég vil árétta að þó að hér sé um stjórnarfrumvarp að ræða þá er að mínu mati mjög mikilvægt að einhugur ríki um löggjöf sem þessa og sérstaklega þegar um er að ræða svona íþyngjandi ákvarðanir og þann lagaramma sem við erum að setja framkvæmdarvaldinu, sem getur verið alls konar á alls konar tímum.
Hér er hins vegar verið að horfa til þessarar heimildar, ekki bara út frá núverandi ástandi, núverandi faraldri, heldur mögulega öðrum farsóttum í framtíðinni, eins og hv. þingmaður víkur að í spurningu sinni, mögulegri eitrun eða geislavirkni eða einhverju slíku. Þannig að það var mat hópsins, sem kann og þekkir, að leggja þetta til við mig og ég legg þetta hér til við Alþingi og hv. velferðarnefnd fjallar væntanlega efnislega um þetta.