sóttvarnalög.
Herra forseti. Mig langar að nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í starfshópinn sem ráðherra skipaði. Komið hefur fram, í máli ráðherra, að þrátt fyrir að Persónuvernd hafi ekki verið þar, og ég tek undir að það vekur furðu, var leitað til þeirra með umsögn. Mig langar til að spyrja hvort allar athugasemdir Persónuverndar hafi verið teknar til greina í frumvarpinu sem liggur fyrir núna. Það kemur fram í frumvarpinu að Persónuvernd hafi m.a. gert athugasemd við að óheimilt sé að nota gögn sem aflað hafi verið í öðrum tilgangi. Það er undarlegt að það hafi þurft þau til að benda á það eftir á, þannig að þegar frumvarpið liggur fyrir eftir starfshópinn er þetta ekki nægilega skýrt. Það kallar á frekari spurningar og vangaveltur um hvort fulltrúar annarra hópa hefðu ekki þurft að vera í þessum starfshópi. Við erum að kljást við risamál, risainngrip í réttindi og líf fólks. (Forseti hringir.) Ég spyr hvort ráðherra hafi ekkert velt fyrir sér (Forseti hringir.) sálfræðingum, félagsfræðingum, (Forseti hringir.) VIRK og öðrum aðilum. Hvar eru þau í þessu frumvarpi?