sóttvarnalög.
Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það hefði flýtt vinnunni ef þessir aðilar hefðu átt fulltrúa í starfshópnum, að við í velferðarnefnd Alþingis værum ekki núna að kalla eftir umsögnum. Ég álít nú reyndar að þeir sem þetta plagg skrifa átti sig á því að eitthvað er vanunnið vegna þess að það er sjaldgæft að sjá það beinlínis í greinargerð að almenningur sé hvattur til að senda inn umsagnir til velferðarnefndar Alþingis. Það er alla jafna eitthvað sem gert er á fyrri ferlum í samráðsgátt. En ég skil að það var flýtir á þessu og ef svarið er að það hafi verið til að flýta fyrir að hafa þessa aðila ekki í starfshópnum sem útbjó frumvarpið, sem fer nú í þinglega meðferð, heldur ætli velferðarnefnd að kalla þá til og fá til umsagnar, þá er það bara þannig. Við erum þá ósammála um það ferli. En það er ágætt að heyra að hugmyndir Persónuverndar skiluðu sér í þessa vinnu. Ég held að það verði mjög fróðlegt að fá þá aðila sem ég taldi upp áðan og heyra hvaða skoðanir þeir hafa á þessum málum, í ljósi þeirrar umræðu (Forseti hringir.) sem átt hefur sér stað í samfélaginu nú í ríflega hálft ár og þeirrar reynslu sem við höfum af afleiðingum (Forseti hringir.) inngrips á borð við sóttvarnaráðstafanir á líf fólks og heilsu.