151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Enn og aftur þá er það náttúrlega bara mitt mat sem heilbrigðisráðherra á þessum tímapunkti að rétt sé að flýta aðkomu Alþingis að málinu. Það hefði verið hugsanlegt að leggja annað mat á málið og taka lengri tíma í samráð á fyrri stigum. En þau sem skipuðu frumvarpshópinn voru þau sem koma beint að aðgerðunum, þ.e. ríkislögreglustjóri, embætti landlæknis, sóttvarnalæknir, ráðuneyti dómsmála og heilbrigðismála o.s.frv. Það er rétt og eðlilegt, og ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það, að það er mikilvægt að almenningur komi að umfjöllun um þennan lagaramma. En hins vegar er það rétt sem komið hefur fram í fyrri athugasemdum annarra þingmanna að það er líka full ástæða til að fara í heildarendurskoðun lagarammans þegar faraldurinn er að baki, þegar við höfum (Forseti hringir.) lokið við að innbyrða, ef svo má segja, þann lærdóm sem af honum hlýst.