151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um sóttvarnalög og ég fagna þeim heitt og innilega. Aðalatriðið, sem er auðvitað nýmæli í þessum lögum, er heimild til að setja á útgöngubann. Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að nú verðum við fyrst Norðurlandanna til að taka þetta upp, hvort ekki hefði verið eðlilegt í því samhengi að ráðherra hefði þessa heimild en þyrfti að leita samþykkis Alþingis eins fljótt og auðið væri til að skýra mál sitt. Það væri auðvitað mun betra, hugsa ég, og lýðræðislegra á allan hátt.

Við vitum að mesta vandamál okkar núna í þriðju bylgjunni eru smit sem koma að utan inn til landsins. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra telji að þessi nýju lög muni gefa henni betri möguleika á að stöðva þannig smit inn til landsins.