151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég get ekki annað en verið sammála henni og ég vona heitt og innilega að við förum vel ofan í þetta mál í hv. velferðarnefnd. Eins og staðan er í dag segir það okkur samt að við verðum að læra af þeirri reynslu sem nú þegar er komin. Enginn vill lenda aftur í nákvæmlega sömu aðstæðum og þess vegna skil ég ósköp vel þessar heimildir. En alltaf þegar maður sér svona heimild um útgöngubann kemur hálfgerður hrollur í mann. Manni finnst það ekkert skemmtilegt og spennandi að við verðum fyrst á Norðurlöndum til að lögfesta þetta. Það er svolítið mikil ábyrgð og ég vona heitt og innilega að við stöndum undir því og finnum bestu lausnina á þessu. Það myndi stórhjálpa þessu frumvarpi.